„Það getur ekki verið að atvinnulífið sé svo ábyrgðarlaust að það fylgi forystu sinni að máli að það fórni gríðarlegum hagsmunum fyrir nokkur hundruð tonn af skötusel. Málflutningur Samtaka atvinnulífsins er fyrirsláttur, um kerfi sem mikill meirihluti Íslendinga er á móti,“ sagði Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingar, á þingi í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa stuðlað að ósætti við Samtök atvinnulífsins vegna skötuselsmálsins. Sagði hann ríkisstjórnina fullkomlega ábyrgðarlausa. Ásakaði hann forsætisráðherra fyrir að skrökva til um það að það kæmi henni á óvart að stöðugleikasáttmálanum yrði sagt upp vegna skötuselsmálsins.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, gerði athugasemd við að forseti alþingis hefði ekki gert athugasemd við ummæli Guðlaugs Þórs um forsætisráðherra. Sagði hún viðbrögð SA undanleg við skötuselsmálinu. Benti hún á að í frumvarpinu væru mikilvæg atriði á borð við aukin veiði- og vinnsluskylda sem skipti miklu máli fyrir uppbyggingu atvinnulífsins. Sagði hún ljóst að SA hefði mikilla hagsmuna að gæta af stöðugleikasáttmálanum. „Þessi viðbrögð eru óábyrgð og út úr öllu korti,“ sagði Ólíka og skoraði á SA að ganga fram af samfélagslegri ábyrgð til þess að endurreisa atvinnulífið og lífskjörin í landinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknar, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að sýna ekki samstöðu og fyrirhyggju með ákvörðun sinni um skötuselsmálið. Sagði hann rangt að LÍÚ gangi fram með offorsi. „Stöðugleikasáttmálinn átti að standa vörð um atvinnumálin, hrinda átti öllum hindrunum úr vegi í tengslum við uppbyggingu Helguvíkur, síðan einkasjúkrahúsið og nú ECA. Hvar er stöðugleikinn? Ekki einustu er þetta kyrrstöðusáttmáli heldur förum við hratt aftur á bak.“