Meirihluti vill ekki slaka á umhverfisvernd fyrir stóriðju

Sérfræðingar telja að Þjórsárver geti komið til greina á heimsminjaskrá …
Sérfræðingar telja að Þjórsárver geti komið til greina á heimsminjaskrá UNESCO. mbl.is/RAX

Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun Fréttablaðsins er andsnúinn því að slaka á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir nýjum stóriðjuframkvæmdum.

Alls sögðust 57,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku andsnúin slíkum tilslökunum, en 42,3 prósent voru þeim fylgjandi. Könnunin var gerð síðastliðið fimmtudagskvöld.

Helmingur þeirra karla sem afstöðu tóku vildi slaka á kröfum. Mun færri konur voru þeirrar skoðunar, um 34 prósent þeirra sem afstöðu tóku.

Tveir af hverjum þremur sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn yrði gengið til þingkosninga nú, 67 prósent þeirra sem afstöðu tóku, vildu slaka á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir nýjum stórframkvæmdum.

Alls 62 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 69 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn vildu slaka á kröfum um umhverfisvernd.

Afstaða stuðningsmanna stjórnarflokkanna var á annan veg. Einn afhverjum fimm, um 21 prósent þeirra sem afstöðu tóku, sögðust styðja tilslakanir en fjórir af fimm, rúm 79 prósent, voru þeim andsnúnir.
Aðeins 12 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna voru fylgjandi tilslökunum, en 29 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar, samkvæmt Fréttablaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert