Samkvæmt nýju frumvarpi Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra um rannsókna á fjárhagsstöðu skuldugra
heimila
verður hrint af stokkunum víðtækri rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra
heimila í
ljósi aðstæðna í samfélaginu.
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að vísa til þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingis tveimur frumvörpum efnahags- og viðskiptaráðherra til laga. Þau eru frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög sem fjallar um vernd minnihluta hluthafa og frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila, sem leggur til að ráðherra verði heimilt að að hleypa af stokkunum víðtækri rannsókn á fjárhagsstöðu heimila og áhrifum úrræða í skuldamálum.
Víðtæk rannsókn á stöðu heimilanna og áhrifum aðgerða
Samkvæmt frumvarpi ráðherra um rannsókna á fjárhagsstöðu skuldugra heimila verður hrint af stokkunum víðtækri rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Á síðasta ári vann Seðlabanki Íslands rannsókn á stöðu heimilanna. Þar sem bankinn hefur ákveðið að halda þeirri vinnu ekki áfram lagði efnahags- og viðskiptaráðherra fram tillögu í ríkisstjórn um að ráðuneytið myndi skipuleggja nýrri rannsókn sem haldið verður áfram í 1-2 ár. Þessari rannsókn er ætlað að styðja mat á áhrifum úrræða til stuðnings skuldsettum heimilum og alla ákvarðanatöku opinberra aðila á þessu sviði.
Markmið laganna er að tryggja ráðuneytinu aðgang að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að greina skuldir heimilanna. Allar upplýsingar verða gerðar ópersónugreinanlegar og ekki verður um varanlegt gagnasafn að ræða. Gert er ráð fyrir að viðvarandi söfnun upplýsinga geti staðið yfir í allt að 1-2 ár og að allri úrvinnslu verði lokið innan þriggja ára hið mesta.
Ráðuneytið gerir ráð fyrir því að hrinda rannsókninni af stað um leið og frumvarpið er orðið að lögum og að fyrstu niðurstöður liggi fyrir eins fljótt og auðið er.
Aukin vernd minnihluta í hlutafélögum og einkahlutafélögum
Tilgangur lagafrumvarpsins um breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er að styrkja vernd minnihluta og veita valdi meirihlutans mótvægi. Hluthafi getur nú krafist þess að félagið innleysi hlut hans til þess að honum verði kleift að losna úr félaginu ef t.d. stjórn eða framkvæmdastjóri félags hefur brotið gegn hagsmunum félagsins, annar hluthafi hefur misbeitt áhrifum sínum eða djúpstæður og langvarandi ágreiningur hefur risið milli hluthafans og annarra hluthafa. Takmörkuð er heimild stjórnar í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á verðbréfamarkaði til þess að ákveða fjárhæð sem félagið má reiða fram sem endurgjald fyrir kaupum á eigin hlutum eða verð við sölu.
Einnig verður hluthöfum heimilt að hafa með sér ráðgjafa á hluthafafundi og hafa þeir málfrelsi. Þá er rýmkuð heimild til að krefjast aukafundar, þannig að nú þarf aðeins atkvæði þeirra sem eiga 5% hlutafjár til að fara fram á fund. Önnur ákvæði frumvarpsins taka meðal annars til upplýsingaskyldu stjórna og lengingu á lágmarksfresti til boðunar hluthafafunda.