Ríkisstjórnin lýsir vonbrigðum sínum og undrun með yfirlýsingar Samtaka atvinnulífsins varðandi stöðugleikasáttmálann. Ríkisstjórnin vísar því alfarið á bug að stöðugleikasáttmálanum hafi verið slitið af hálfu ríkisstjórnarinnar með samþykkt Alþingis á skötuselsfrumvarpinu svo kallaða. Ekkert er fjallað um skötusel í stöðugleikasáttmálnum og þar gefur ríkisstjórnin engin fyrirheit um þau mál, að því er segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
„Stöðugleikasáttmálinn snýst ekki um skötusel eða kvótakerfið yfirleitt. Stöðugleikasáttmálinn er formlegur samráðsvettvangur ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Bændasamtaka Íslands og Samtaka atvinnulífsins um margvísleg brýn samfélagsmál og efnahagslega endurreins Íslands. Allir ábyrgir aðilar hljóta að koma að því mikilvæga samstarfi hvað sem öðrum óskyldum ágreiningsmálum líður.
Ríkisstjórnin hvetur Samtök atvinnulífsins til áframhaldandi samstarfs á grundvelli stöðugleikasáttmálans og lýsir því yfir að hér eftir sem hingað til er ríkisstjórnin reiðubúin til samstarfs og sátta um einstök mál. Hvað sem afstöðu Samtaka atvinnulífsins líður mun áfram verða unnið að endurreisn efnahagslífisns á grundvelli stöðuleikasáttmálans enda miðar vel í þeim verkefnum sem þar er unnið að," segir í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.