Sódómu lokað vegna reykskemmda

Frá slökkvistarfinu í morgun.
Frá slökkvistarfinu í morgun. mbl.is/Júlíus

Reykskemmdir urðu á tónleikastaðnum Sódómu Reykjavík við Tryggvagötu í morgun vegna eldsins, sem logaði í skemmtistaðnum Batteríinu í næsta húsi. Verður Sódóma því lokuð næstu daga á meðan er að þrifum og við að yfirfara tækjabúnað.

Fram kemur í tilkynningu frá Sódómu, að staðurinn hafi sloppið  við beinar bruna- og vatnsskemmdir og þá séu reykskemmdirnar ekki taldar vera alvarlegar.  Fyrirhuguðum tónleikum, sem áttu að vera um næstu helgi verða fundnar aðrar dagsetningar við fyrsta tækifæri og hefur viðkomandi tónleikahöldurum verið tilkynnt þetta.

Tilkynnt var um eldinn í Batteríinu á sjöunda tímanum í morgun og var allt tiltækt slökkvilið ásamt lögreglu kallað á svæðið. Slökkvistarf gekk vel. Nokkur hætta var á gassprengingum vegna gaskúta sem oft leynast við skemmtistaði en tókst að forða þeim.

Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um hugsanleg eldsupptök en talið er að eldurinn hafi kviknað á efri hæð hússins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert