Lögreglan á Hvolsvelli stöðvaði í fyrrakvöld menn sem eru grunaðir um að hafa að ætlað sér að nýta sér það að sveitarbæir væru auðir, þar sem fólki var gert að rýma heimili sín vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Að sögn lögreglu voru mennirnir sem eru af erlendum uppruna allir með sögu um innbrot hér á landi. Sögðust þeir hafa ætlað sér að skoða gosið en þeim var vísað í burtu þar sem þeir töldust ekki eiga erindi inn á svæðið.
Lögregla sagði eðlilegt að sumir hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar mörg heimili stæðu auð. Hins vegar stæði hún vel vaktina og væri með öflugt eftirlit. Það væru bílar úti alla nóttina og allan sólarhringinn. Allir bílar væru stöðvaðir og þeir skoðaðir. Þeim sem ekki ættu erindi væri svo vísað af svæðinu og fylgst með því að þeir fari.