Nauðsynlegt er að huga að uppbyggingu á Hveravallasvæðinu til að hægt verði að sinna betur ferðamönnum á svæðinu. Þetta kemur fram í Húnahorninu en málefni hins vinsæla ferðamannastaðar Hveravalla voru rædd á síðasta hreppsnefndarfundi Húnavatnshrepps.
Þar kom fram að meðal annars þyrfti að bora eftir góðu neysluvatni utan verndarsvæðis, bora eftir heitu vatni, lagfæra aðstöðu vegna veitingasölu og lagfæra um 9 km kafla á Kjalvegi við Hveravelli.
Húnahornið segir einnig hafa verið rætt um rafmagnsframleiðslu. Yfir vetrarmánuðina sé keyrð lítil vél, sem eyði um 80 lítrum af olíu á mánuði. Stærri vél sé keyrð yfir sumarið er keyrð stærri vél en hægt sé að ná olíueyðslu meira niður með ákveðnum breytingum m.a. með framleiðslu á rafmagni með tvenndarvélum.
Málþing um Hveravelli verður haldið í Húnaveri þann 9. apríl næstkomandi skv. Húnahorninu.