Hraunflákinn sem runnið hefur úr gossprungunni á Fimmvörðuhálsi var orðinn 0,4 ferkílómetrar í gær en var 0,1 ferkílómetri daginn áður. Samkvæmt þessu virðist hraunrennslið fara vaxandi í gosinu, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.
Meðfylgjandi kort er sett saman eftir SAR myndum úr flugvél Landhelgisgæslunnar og ljósmyndum Jarðvísindastofnunar sem teknar voru í gær. Þá segir á vef Veðurstofunnar:
„Gosóróinn hefur verið af svipaðri stærð frá því í gærdag en inn á milli hafa komið sterkari hviður. Í gærkvöldi milli klukkan 19 og 20 kom ein slík óróahviða og stuttu síðar, eða frá því um klukkan 20:25 til 21:00, komu fram bólstrar á veðursjá Veðurstofunnar sem náðu í um 7 kílómetra hæð.
Líklega hefur kvikustreymi aukist og hraun náð inn á jökulinn og myndað gufusprengingu eins og gerðist í gærmorgun. Um sjöleytið í morgun kom einnig öflug óróahviða. Frá miðnætti hefur rúmlega tugur jarðskjálfta mælst með upptök undir Eyjafjallajökli og eru þeir allir minni en 2 að stærð.“