Vilja að skötuselslög verði afnumin

Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, Vilmundur Jósefsson og Vilhjálmur Egilsson …
Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, Vilmundur Jósefsson og Vilhjálmur Egilsson á fundi í Stjórnarráðinu í dag.

Formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) segir það ófrávíkjanlega kröfu samtakanna, að svonefnd skötuselslög, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, verði dregin til baka. Samtökin segjast líta svo á, að ríkisstjórnin hafi með þessari lagasetningu slitið stöðugleikasáttmálanum, sem gerður var í fyrra.

„Okkur var gefinn selbiti," sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á blaðamannafundi í dag þar sem þeir gerðu grein fyrir afstöðu SA til málsins.

Sagði Vilhjálmur að skötuselsmálið snérist um tvö grundvallarmál. Í fyrsta lagi hefði Alþingi allt í einu veitt heimild til að ofveiða eina fiskitegund 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en SA væru fylgjandi því að farið verði að ráðgjöf fiskifræðinga. 

Í öðru lagi væri með lögunum verið að gera grundvallarbreytingar á kvótakerfinu, sem fælust í því að selja ætti fiskveiðikvótann en lögin gera ráð fyrir því að viðbótarkvóta í skötusel verði úthlutað gegn gjaldi. Sagði Vilhjálmur, að útgerðir hefðu tekið á sig kvótaskerðingu þegar illa gekk en ættu ekki samkvæmt þessu ekki að njóta þess þegar betur áraði.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, sagði að það væri ófrávíkjanleg krafa samtakanna að skötuselslögin verði dregin til baka. Á blaðamannafundinum taldi hann upp mörg dæmi um vanefndir ríkisstjórnarinnar á stöðugleikasáttmálanum og sagði að skötuselsmálið væri kornið sem fyllti mælinn og varð til þess að SA sagði sig frá sáttmálanum.

Aðspurður hvort samstarfið myndi stranda á skötuselslögunum ef bætt yrði úr öðrum vanefndum, svaraði Vilmundur játandi og bætti við að það hlyti að vera hægt að koma skötuselsmálinu í sáttafarveg. Vilhjálmur sagði, að þetta væri álitamál, sem hann myndi gjarnan vilja standa frammi fyrir.

Þeir Vilmundur og Vilhjálmur hittu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á fundi í dag þar sem rætt var umbréf, sem samtökin sendu ríkisstjórninni í gærkvöldi en þar var þeirri skoðun lýst að ríkisstjórnin hefðu vísað SA út úr stöðugleikasáttmálanum.

Vilmundur sagði, að samtökin myndu áfram vinna að öllum hagsmunamálum atvinnulífsins, sem rætt hefði verið um í stöðugleikasáttmálanum, þrátt fyrir þessa stöðu, og þetta hefði ekki áhrif á þátttöku lífeyrissjóða í ýmsum framkvæmdum og öðrum verkefnum sem þar er fjallað um.

„Þetta snýst ekki um hefnd," sagði Vilhjálmur Egilsson. 

Heimasíða Samtaka atvinnulífsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka