Allt á að vera uppi á borðum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Þingmenn fjölluðu meðal annars um styrki til stjórnmálaflokkanna þegar þeir ræddu um störf þingsins í upphafi þingfundar og hvöttu til þess að allar upplýsingar ættu að vera uppi á borðum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. að siðvæðing stjórnmálanna tækist ekki nema stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn gerðu hreint fyrir sínum dyrum þegar komi að öllum hugsanlegum hagsmunatengslum. Hann spurði meðal annars hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að nafngreina helstu kostendur flokksins og flokksfélaga á síðustu árum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði mikilvægt að eyða tortryggni vegna fjármála stjórnmálaflokkanna. Hún sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lengi verið stærsti flokkur landsins og því mætti segja að hlutfallslega hefðu hærri fjárhæðir runnið til hinna flokkanna.

Hins vegar hefðu sumir styrkir, sem flokkurinn fékk, verið of háir og farið úr böndum. Þetta mætti ekki gerast aftur. Því hefði verið ákveðið að skila þessum háu styrkjum til baka.Á sama tíma hefði Samfylkingin þegið háa styrki frá FL Group og Baugi og fleiri tengdum fyrirtækjum. Spurði Þorgerður Katrín hvort Samfylkingin ætlaði að skila þeim styrkjum. 

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sjálfstæðismenn ættu að sjá sóma sinn í að birta öll framlög til flokksins, svo sem í helstu útgerðarbæjum landsins. Hugsanlega mætti skoða tregðu flokksins við að gefa þessa styrki upp í ljósi andstöðu sjálfstæðismanna við skötuselsfrumvarpið svonefnda. Sjálfstæðisflokkurinn væri andvígur því að þeir sem nota auðlindirnar greiði fyrir það sjálfsagt gjald.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að skötuselsfrumvarpið snérist um að hér hefði verið hlutdeildarkerfi í fiskveiðistjórnun sem byggði á því, að þegar aflaheimildir væru skornar  niður gætu þeir, sem skorið væri niður hjá, gengið út frá því að þegar aflaheimildar aukist aftur muni þeir fá það til baka sem var skorið niður. Þessu væri kippt úr sambandi með skötuselslögunum.

Illugi sagði að þingmenn Samfylkingarinnar ættu að velta því fyrir sér hvort það kynni að hafa verið samband á milli afstöðu þess flokks til fjölmiðlafrumvarpsins á sínum tíma og þess hverjir voru þá duglegastir við að styrkja Samfylkinguna.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lagði til að lögaðilum verði bannað að styrkja stjórnmálaflokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert