Álykta um lögbann við nektardansi

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar og framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna hafa sent frá sér ályktanir þar sem nýsamþykktum lögum um bann við nektardansi er fagnað. Jafnframt hefur Kvenréttindafélag Íslands gert hið sama.

„Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fagnar því að nú eru nektarsýningar í atvinnuskyni með öllu bannaðar á veitingastöðum á Íslandi. Með lagabreytingunni sem Alþingi gerði á veitingahúsalöggjöfinni í gær hefur öllum vafa verið eytt um heimildir til þess að veitingastaðir hagnist á nekt starfsmanna sinna eða annarra sem á staðnum eru. Áður hafði verið lagt bann við einkadansi og því að sýnendur fari um á meðal áhorfenda.

Stjórn Kvennahreyfingarinnar ítrekar ályktun ársþings Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar frá 19. mars sl. og fagnar enn þeim forgangi sem baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hefur haft hjá núverandi ríkisstjórn. Með því ófrávíkjanlega banni sem sett var á nektarsýningar í gær er miklum áfanga náð í baráttunni gegn mansali og vændi hér á landi."

Ályktun framkvæmdastjórnar Ungra jafnaðarmanna

„Í landi sem vill kenna sig við jafnrétti og mannréttindi á slík starfsemi ekki að líðast og því löngu tímabært að banna hana. Ungir jafnaðarmenn fagna þessu sögulega skrefi og hvetja ríkisstjórnina til þess að halda áfram á sömu braut í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.“

Ályktun Kvenréttindafélags Íslands

„Kvenréttindafélag Íslands fagnar lögum þeim sem samþykkt voru á Alþingi í gær, 23. mars, og kveða á um allsherjarbann við nektardansi á Íslandi frá og með 1. júlí nk. Sérstaklega er ánægjulegt til þess að vita að breið pólitísk samstaða hafi verið um frumvarpið sem fulltrúar allra flokka greiddu atkvæði sitt með.
 
Lögin gefa ekki aðeins skýr skilaboð um það að nektardans tengist kynbundnu ofbeldi og sé þess vegna óásættanlegur á Íslandi heldur eru lögin einnig stórt skref í átt að samfélagi þar sem jafnrétti og virðing ríkir."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert