Aukinn kraftur færðist í eldgosið í Fimmvörðuhálsi í kvöld og sást eldurinn víða að m.a. frá Hvolsvelli, en þar stendur yfir íbúafundur þar sem farið er yfir stöðu mál og öryggisaðgerðir almannavarnanefndar.
Atli Árdal Ólafsson, lögreglumaður á Hvolsvelli, sagði að eldur hefði sést vel frá Hvolsvelli í kvöld. Hann sagðist aldrei hafa séð jafnmikinn kraft í gosinu síðan eldgosið hófst. Veður er mun betra núna en það hefur verið frá því gosið hófst og getur það haft áhrif á hvernig gosið sést ú byggð.
Eldgosið hefur sést ágætlega víða úr byggð í kvöld. Það sást t.d. vel frá Laugavatni.
Vefmyndavél frá Þórólfsfelli sýndi aukinn kraft í gosinu milli kl. 8 og 9 í kvöld en síðan dró heldur úr eldinum.
Það er þéttsetinn bekkurinn í íþróttahúsinu á Hvolsvelli þar sem íbúar eru fræddir um gosið og hugsanlegar afleiðingar þess. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur var með framsögu um gosið og svaraði spurningum fundarmanna.
Á fundinum voru einnig fulltrúar Veðurstofu, ríkislögreglustjóra og sveitarstjórn.
Fyrr í dag var fundur með pólskum íbúum í Rangárvallasýslu.