Evrópuár gegn fátækt hefst á morgun

Evrópuárið 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun  hefst formlega hér á landi á morgun með ráðstefnu á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins í Iðnó. Verður  þar fjallað um fátækt á Íslandi og í Evrópulöndum og kynnt úrræði sem hafa gefist vel til að bæta aðstæður fólks og rjúfa félagslega einangrun.

Berjumst gegn fátækt er yfirskrift Evrópuársins sem Ísland tekur fullan þátt í, ásamt Evrópusambandslöndunum 27 og Noregi, og hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið umsjón með átakinu af Íslands hálfu. Stýrihópur hefur verið settur á laggirnar, skipaður fulltrúum sveitarfélaga, félagasamtaka, aðila vinnumarkaðarins og hjálparstofnana, og hefur hann til úthlutunar 35 milljóna króna sjóð sem fjármagnaður er til helminga af íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu en alls er varið 42 milljónum króna til átaksins hér á landi. 

Allir áhugasamir geta sótt um styrk til verkefna og leggja stjórnvöld áherslu á þátttöku sem flestra. Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum um styrki en frestur til að skila inn umsóknum er til 2. apríl næstkomandi. Verkefni og rannsóknir verða að jafnaði styrkt um að hámarki 80% af heildarkostnaði en mótframlagið getur hvort sem er verið í formi vinnuframlags eða fjármuna.

Ráðstefnan í Iðnó á morgun stendur yfir frá klukkan 12 til 14.30. Er hún öllum opin og aðgangur ókeypis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert