„Gagnrýnisvert hvernig fyrirtækin hegða sér"

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ. mbl.is/Heiddi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að sambandið líti það mjög alvarlegum augum að fyrirtækin í landinu skuli velta kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið á kostnað almennings. Verðbólgan er komin í 8,5% og hækkaði vísitala neysluverðs um 0,55% á milli mánaða.

Vont og alvarlegt mál

Hann segir að mæling á vísitölu neysluverðs í marsmánuði sé afar vond mæling. Verðbólgan hækki mikið á milli mánaða. Að vísu séu áhrif af vetrarútsölum að ganga til baka en það breyti því ekki að verðbólgan fari í 8,5%. „Sem er mjög vont og alvarlegt mál," segir Gylfi.

Gylfi bendir á að þetta geti haft áhrif á næstu vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands líkt og fram hafi komið þegar síðasta vaxtaákvörðun bankans var kynnt.

Ekki hægt að sjá að eitthvað verðbólgufóður sé í gangi

„Mér finnst það mjög gagnrýnisvert hvernig fyrirtækin eru að hegða sér. Við vitum auðvitað að krónan er búin að vera mjög veik en hún hefur verið það um alllangan tíma. Þannig að við sjáum ekki alveg að það sé eitthvað verðbólgufóður í gangi. Það er alveg ljóst að fyrirtækin í landinu eru að hækka verð á vöru og þjónustu í þessu ástandi og það er mjög alvarlegt," segir Gylfi.

Kemur í bakið á fyrirtækjunum

Hann segir að ef fyrirtækin hafa einhvern hug á sínum langtímahagsmunum þá hljóti stjórnendur þeirra að gera sér grein fyrir að svona hátterni muni koma í bakið á þeim. „Það  er alveg ljóst að verkafólk mun ekki sætta sig við það að vera eitt skilið eftir á með efnahagsvandann. Þá verðum við að sækja greiðslugetuna til fyrirtækjanna þegar þar að kemur. Þannig að ef við ætlum að vinna saman að því að komast út úr þessum vanda þá gerum við það ekki svona," segir Gylfi.

Mjög að trosna upp úr samstarfi við atvinnurekendur

Samtök atvinnulífsins sögðu sig frá stöðugleikasáttmálanum fyrr í vikunni eftir að Alþingi samþykkti svokallað skötuselsfrumvarp. Aðspurður um hvaða áhrif það muni hafa segir Gylfi að ljóst sé að það sé að trosna mjög mikið upp úr samstarfinu. 

„Við sættum okkur ekki við það að fyrirtækin í landinu ætli að leysa sín vandamál með því að velta þeim yfir á almenning. Það kemur ekki til greina. Menn hafa haft ákveðinn skilning á erfiðri stöðu og hafa verið að reyna að bregðast sameiginlega við því. Meðal annars með kröfu um eflingu atvinnumála. En þegar fyrirtækin eru við þessar aðstæður að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið á kostnað almennings. Að bankarnir séu að þvinga fyrirtækin til að hækka verð á vöru til að borga af skuldum sem ekki er hægt að borga af. Þá verður brugðist við," segir Gylfi en neitar að gefa upp við blaðamann með hvaða hætti verði brugðist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert