Fólki er heimilt að fara gangandi upp á Fimmvörðuháls en það gerir það á eigin ábyrgð. Almannavarnanefnd vekur athygli á því að veður getur breyst hratt á þessu svæði. Mælingar benda til að þrýstingur í eldstöðinni hafi ekki minnkað.
Almannavarnanefnd Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu fundaði í dag með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og vísindamönnum.
Mælingar gefa til kynna að þrýstingur í eldsstöðinni hafi ekki minnkað og er því enn talin hætta á að gosið geti farið undir jökul. Vegna þess verður áfram lokað inn í Þórsmörk en gos undir jökli getur kallað fram flóð sem fari þar niður. Af sömu ástæðu er umferð um Eyjafjallajökul bönnuð.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, leggur áherslu á að það sé ekki nema fyrir þá sem eru vanir fjallgöngum að vetrarlagi að fara upp á Fimmvörðuháls. Gangan upp á hálsinn tekur um fimm klukkutíma. Víðir segir að menn verði að vera vel búnir og fara varlega.
Spáð er góðu veðri við gosstöðvarnar næstu daga. Fimmvörðuháls er hins vegar þekkt veðravíti og því betra að fara varlega. Árið 1970 urðu þrír menn úti á hálsinum í mjög vondu veðri.
Víðir segir að klaki sé að fara úr jörðu og því þoli vegslóðar litla umferð. Vegurinn upp á Fimmvörðuháls er að verða ófær eftir þá litlu umferð sem farið hefur um hann eftir að gosið hófst. Í dag festu tveir bílar sig í veginum og þurftu ökumenn þeirra að kalla eftir aðstoð.
Umferð ökutækja upp Fimmvörðuháls er bönnuð vegna aurbleytu en sú leið verður opin fyrir göngufólk. Fólk sem fer að gosstöðinni gerir það á eigin ábyrgð og vakin er athygli á því að veður getur breyst hratt á þessu svæði. Göngufólk er hvatt til þess að vera vel útbúið og ágætt að taka mið af leiðbeiningum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg er með á heimasíðu sinni.
Þeir sem fara gangandi upp Fimmvörðuháls geta skráð sig við Skóga áður en þeir leggja af stað.
Verið er að vinna að lagfæringum á veginum um Fljótshlíð að Fljótsdal til að auðvelda ferðafólki að komast á staðinn.
Í tilkynningu frá almannavarnanefnd segir að þessar ákvarðanir verði endurskoðaðar daglega með teknu tilliti til upplýsingum frá vísindamönnum.
Verið er að kanna hvort hægt er að bæta veginn inn í Fljótsdal, en búast má að margir leggi leið þangað til að skoða gosið. M.a. er verið að skoða hvort hægt er að búa til bílaplan sem gefur ökumönnum færi á að leggja bílum sínum og snúa við með auðveldu móti.