Að áliti talsmanns neytenda er hæpið að halda því fram að niðurfærsla skulda neytenda sé skattskyld samkvæmt gildandi lögum. Skattlagning færi því í bága við stjórnarskrá þar sem ekki sé um að ræða ívilnun eða „eignaauka“ - heldur staðfestingu á rétti neytenda.
Í fjármálaráðuneytinu er unnið að frumvarpi sem felur í sér breytingu á skattalögum, en breytingarnar miðað því að „hóflegar“ afskriftir skulda verði ekki skattlagðar. Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag að samkvæmt gildandi lögum sé skattstofninn 100%, en fyrirhugað sé að breyta þessu þannig að hann verði 50-75%.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, telur hins vegar að afskriftir skulda séu ekki skattskyld samkvæmt gildandi lögum.
Í 7. gr. tekjuskattslaga segir að skattleggja skuli „sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum.“
Gísli segir afar hæpið að telja niðurfærslu skulda „ígildi tekna“. Hann bendir einnig á að ekki sé unnt að benda á fordæmi í skattframkvæmd eða úr úrskurðum yfirskattanefndar því til stuðnings að „afskriftir“ skulda hafi verið skattlagðar í raun.
„Gæti það bent til þess að almennt hafi ríkt sú afstaða hingað til að raunhæf eða réttmæt afskrift skulda vegna aðstæðna teljist ekki „eignaauki“ í skilningi skattalaga; ætti sá skilningur ekki síður að eiga rétt á sér við núverandi aðstæður. Auk þess liggja fyrir tveir eldri úrskurðir ríkisskattanefndar sem virðast styðja þá niðurstöðu að niðurfærsla skulda teljist ekki skattskyldar tekjur.“