Alþýðusamband Íslands (ASÍ) krefst þess að stjórnvöld leggi ekki síðar en um hádegi á mánudag fram frumvarp sem lögbindur greiðsluskyldu lífeyrissjóða og atvinnurekenda í starfsendurhæfingarsjóð. Hefur stjórn sambandsins sent ríkisstjórn Íslands bréf þess efnis.
Í stöðugleikasáttmálanum, sem undirritaður var í júní sl., hétu stjórnvöld því að á árinu 2009 yrði lögfest að atvinnulífið greiddi gjald í starfsendurhæfingarsjóð.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að á fundum sambandsins með stjórnvöldum í vikunni hafi ráðherrar fullyrt að ekki væri meirihluti fyrir slíkri breytingu meðal þingflokka stjórnarflokkanna.
Hann segir sambandið ekki sætta sig við að stjórnvöld standi ekki við gerða samninga.