Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hélt áfram af fullum krafti í gær. Úr gossprungunni rísa eldsúlur sem eru allt að 300 metra háar og frá rótum þeirra rennur hraunelfurin fram og í átt að Hrunagili, þar sem hún steypist niður þverhníptan hamarinn.
Meðal þeirra sem fóru á vettvang gossins í gær var Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur sem er fremst á þessari mynd.
„Að skynja mátt náttúrunnar og þá stórbrotnu fegurð sem í eldgosinu felst gerir mann nánast magnvana og auðmjúkan gagnvart höfuðskepnunum,“ sagði Ármann í samtali við Morgunblaðið. Hann telur gosið vera stöðugt en fari þensla á gosstöðvunum ekki að minnka megi búast við langvarandi eldsumbrotum.
Sjá ítarlega umfjöllun um eldana á Fimmvörðuhálsi í Morgunblaðinu í dag.