Litlar breytingar er að sjá á eldgosinu í Eyjafjallajökli á mælum Veðurstofunnar, að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar jarðfræðings hjá Veðurstofunni. Hann sagði að ekki hafi orðið vart aukinnar skjálftavirkni undir austanverðum jöklinum.
Hjörleifur taldi að fremur væri að draga úr gosinu en hitt, ef eitthvað er. Lítillega virðist hafa dregið úr þenslu jarðskorpunnar af GPS mælum að dæma. T.d. hefur mælirinn á Þorvaldseyri aðeins þokast til norðurs eftir að hafa færst talsvert til suðurs frá því síðast í febrúar. Mælirinn þokast þó enn til vesturs eins og hann gerði fyrir gosið.
Jarðvísindamenn Veðurstofunnar eru á vakt til miðnættis og á bakvakt um nætur.