Mánaðarlaun 334 þúsund að meðaltali

Reglu­leg laun á al­menn­um vinnu­markaði voru 334 þúsund krón­ur að meðaltali árið 2009. Miðgildi reglu­legra launa var 282 þúsund krón­ur og því var helm­ing­ur launa­manna með laun und­ir þeirri upp­hæð.

Al­geng­ast var að reglu­leg laun væru á bil­inu 175-225 þúsund krón­ur og var rúm­lega fimmt­ung­ur launa­manna með laun á því bili. Reglu­leg laun karla voru 360 þúsund krón­ur að meðaltali en reglu­leg laun kvenna 293 þúsund krón­ur.

Þetta kem­ur fram í nýj­um Hagtíðind­um Hag­stof­unn­ar. Seg­ir stofn­un­in að sé aðeins horft til þeirra launa­manna sem telj­ist full­vinn­andi, hafi reglu­leg laun þeirra verið að meðaltali 366 þúsund krón­ur á mánuði árið 2009 og var miðgildi þeirra 309 þúsund krón­ur. Reglu­leg heild­ar­laun voru 391 þúsund krón­ur að meðaltali og miðgildið var 344 þúsund krón­ur. Heild­ar­laun voru 423 þúsund krón­ur að meðaltali og miðgildi þeirra var 373 þúsund krón­ur. Greidd­ar stund­ir voru að meðaltali 43,1 á viku.

Launa­menn í hæsta fjórðungi voru með 3,2 sinn­um hærri reglu­leg laun en launa­menn í lægsta fjórðungi árið 2009. Árið 2008 var sam­svar­andi tala 3,4. Seg­ir Hag­stof­an að vís­bend­ing­ar séu um, að bilið á milli hæstu og lægstu launa á al­menn­um vinnu­markaði hafi minnkað frá fyrra ári.

Hag­stof­an seg­ir, að áhrifa af breyttri sam­setn­ingu vinnu­markaðar­ins megi greina í niður­stöðum launa á al­menn­um vinnu­markaði. Þannig drag­ist vægi bygg­ing­ariðnaðar og mann­virkja­gerðar sam­an úr 14% í 8% frá fyrra ári. Sam­drátt­ur í efna­hags­líf­inu end­ur­spegl­ist einnig í breyttri sam­setn­ingu inn­an ein­stakra at­vinnu­greina. Þannig hafi verka­fólki fækkað í fyrr­greindri at­vinnu­grein frá því að vera 49% af vegn­um heild­ar­fjölda í grein­inni árið 2008 niður í 37% árið 2009. Þá jókst vægi stjórn­enda á sama tíma úr 3% í 6%.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert