Mikil umferð við gosstöðvarnar

Gosið blasir við þegar komið er upp á Mýrdalsjökul.
Gosið blasir við þegar komið er upp á Mýrdalsjökul. Jónas Erlendsson

Gríðarlega mikil umferð hefur verið í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í dag, jafnt á landi sem í lofti. Ljóst er að margir nýta sér góða veðrið til að sjá eldgosið í Eyjafjallajökli. Umferðin jókst þegar eftir að gosið braust út að sögn lögreglunnar.

Góð veðurspá er fyrir helgina og má búast við að margir verði þá á ferðinni. Lögreglan á Hvolsvelli hefur fengið liðsstyrk til að bregðast við auknu álagi. 

Talsverð umferð jeppa og vélsleða hefur verið upp Sólheimajökul í dag í átt að gosstöðvunum og má búast við að svo verði áfram næstu daga. Þá hafa talsvert margir lagt land undir fót  og gengið upp frá Skógum. Ástand vegarins þar leyfir ekki vélknúna umferð.

Lögreglan vill brýna fyrir fólki að virða fyrirmæli lögreglu og almannavarna um ferðir og ferðatilhögun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert