„Þetta er alminnsta gos sem ég hef séð á ævinni en það langflottasta. Þetta er alveg klikkað þetta er svo flott,“ sagði Benedikt Bragason hjá Ferðaþjónustunni Arcanum í Mýrdal. Hann býður nú upp á vélsleðaferðir að eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi
„Við förum þrisvar á dag í þriggja tíma ferðir inn á Fimmvörðuháls,“ sagði Benedikt. Um 20-40 manns hafa verið í hverri ferð. Hann segir að þessi nýi möguleiki í ferðaþjónustunni sé nýtilkominn og enn í þróun.
Þegar kom gott skyggni í gær fór Benedikt ásamt fleirum upp á Fimmvörðuháls til að kanna leiðina, færið og aðstæður. Hann sagði að fyrir þá ferð hafi þau verið efins en eftir ferðina sé ljóst að allar aðstæður séu hinar bestu. Fyrstu ferðirnar voru svo farnar í dag.
„Það er gríðarlegur áhugi. Það stoppar ekki hjá mér síminn, hann hringir látlaust,“ sagði Benedikt. Vélsleðafæri er mjög gott á leiðinni en jeppamenn hafa átt í basli með að komast upp Mýrdalsjökul.
Um klukkustundar langur akstur er á vélsleðum upp á Fimmvörðuháls. Þar er viðhöfð klukkustundar viðdvöl til að skoða eldgosið og hraunfossinn einstæða. Síðan er um klukkustundar akstur til baka. Ferðin hefur verið seld á 345 evrur á manninn.
Benedikt sagði að langflestir ferðamennirnir til þessa hafi verið útlendingar. Þegar um hægist ætla þau hjá Arcanum að endurskoða verðskrána með tilliti til þess að finna þægilegra verð fyrir Íslendinga miðað við að tvímennt sé á sleða.
Útlendingarnir verða furðu lostnir við þeirri sýn sem við þeim blasir. „Þeir halda ekki vatni yfir þessu, þetta er svo rosalegt,“ sagði Benedikt. Hann sagði að þetta sé einstök lífsreynsla.
Mjög góð veðurspá er fyrir næstu daga, spáð norðanátt og björtu veðri á jöklinum.