Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, munu funda með æðstu stjórnendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á föstudag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.
Ráðherrarnir munu þá halda til Washington í Bandaríkjunum og sitja þar fundi með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra AGS, og Murilo Portugal, aðstoðarframkvæmdastjóra AGS.
Tilgangurinn er að ræða samstarf íslenskra stjórnvalda við AGS og endurskoðun á efnahagsáætlun AGS.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ráðherrarnir tveir muni einnig funda með völdum fulltrúum bandarískra stjórnvalda í ferðinni. Með í för verða embættismenn úr báðum ráðuneytum og frá Seðlabanka Íslands.