Segir keypt fyrir milljarða án útboðs

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að í opinberri greinagerð með skýrslu innri endurskoðunar um innkaupamál borgarinnar komi fram að keypt sé inn hjá Reykjavíkurborg fyrir milljarða án útboðs og aðkomu innkaupaskrifstofu borgarinnar.

Samfylkingin lagði fram tillögu á fundi borgarráðs í dag um að trúnaði yrði aflétt af skýrslu innri endurskoðunar um innkaupamál borgarinnar.

„Skrifstofur í ráðhúsinu eru ekki á einu máli um hversu stór hluti innkaupanna er án útboðs. Í tölum innri endurskoðunar kemur hins vegar fram að af 7,4 milljarða innkaupum fari einungis 14% í gegnum útboð og rammasamninga með aðkomu innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Alls 1,7 milljarður er keyptur af sérfræðiþjónustu og aðkeyptri vinnu - en aðeins 2% þeirra innkaupa fara í gegnum innkaupaskrifstofu og útboð á hennar vegum. Í báðum tilvikum er verið að miða við árið 2008, sem er það ár sem tekið var út af innri endurskoðun. Því er ljóst að innkaupa og útboðsmál borgarinnar þurfa rækilegrar athugunar við,“ segir Dagur í tilkynningu.

Í tilefni af skýrslu innri endurskoðunar lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi fyrirspurn í borgarráði:

„Innkaupastefnu Reykjavíkurborgar er skýr í því efni að útboðum skuli beitt að svo miklu leyti og unnt er og að hlutur útboða skuli aukast. Þá er kveðið á um að skipulögðum vinnubrögðum skuli beitt. Tölulegar upplýsingar í skýrslu innri endurskoðunar virðast í hróplegu ósamræmi við þessi stefnumið.
 
Óskað er eftir skýringum á því að einungis 14% af 7,4 milljarða árlegum innkaupum Reykjavíkurborgar fari í gegnum útboð eða rammasamninga með aðkomu innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Er þetta hlutfall ásættanlegt að mati borgarstjóra?

Óskað er sérstakra skýringa og nákvæmrar sundurliðunar á 1,7 milljarða innkaupum á sérfræðiþjónustu og aðkeyptri vinnu en einungis 2% þeirra innkaupa fór í gegnum innkaupaskrifstofu. Er þetta hlutfall ásættanlegt að mati borgarstjóra?

Óskað er upplýsinga um hvernig var staðið að innkaupum fyrir þá 6,4 milljarða króna sem ekki fóru í gegnum innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar og hvernig eftirliti með þeim hefur verið háttað.  Er þetta eftirlit ásættanlegt að mati borgarstjóra?

Þá er óskað eftir sambærilegum upplýsingum yfir innkaup á vegum eigna- og framkvæmdasviðs sem ekki fellur undir ofangreinda úttekt innri endurskoðunar.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert