Samband ungra sjálfstæðismanna segir einn stærsta galla á fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar vera stofnun svonefndrar Fjölmiðlastofu. SUS telur að ríkið muni með henni grúfa yfir höfði fjölmiðla og sekta þá sem ekki fara eftir fyrirmælum stofnunarinnar.
Ungir sjálfstæðismenn standa fyrir opnum fundi um fjölmiðlafrumvarpið í hádeginu í dag. Fundurinn fer fram í Valhöll og gestir þau Sigríður Margrét Oddsdóttir, sjónvarpsstjóri Skjásins, og Óli Björn Kárason blaðamaður.
SUS sendi einnig frá sér ályktun vegna frumvarpsins. Sambandið telur alltof hart gengið í takmörkun frelsis fjölmiðla. Bendir það á, að bannað verði að sýna bannaðar bíómyndir fyrr en eftir kl. 21 á kvöldin og mælst til þess að meirihluti dagskrárefnis verði frá Evrópu. „Ljóst er að þessi takmörkun á frelsi fjölmiðla kemur þeim fyrirtækjum mjög illa sem hafa mestar tekjur sínar af auglýsingum. Þá er fráleitt, að mati ungra sjálfstæðismanna, að mælast til þess að meirihluti dagskrárefnis sé frá Evrópu, enda hefur eftirspurnin eftir slíku efni ekki verið mikil á Íslandi.“
Jafnframt bendir SUS á að Fjölmiðlastofa getur skipt sér af dagskrá fjölmiðlanna. „Einn stærsti galli frumvarpsins felst í nokkurs konar fjölmiðlalögreglu ríkisins, Fjölmiðlastofu, sem mun samkv. frumvarpinu hafa ríkt eftirlitshlutverk með bæði dagskrárefni og fjárreiðum fjölmiðlafyrirtækja.“