Styrkur svifryks (PM10) verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag en í borginni er hægur vindur, götur þurrar og engar líkur á úrkomu. Hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi var klukkan tvö 102 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsmörkin eru 50.
Svifryk fór á þriðjudag í tólfta skiptið á árinu yfir heilsuverndarmörk og varð styrkurinn þá á Grensásvegi 128 míkrógrömm á rúmmetra. Dagana 26. – 29. mars er búist við að þurrviðri og auknum vindi sem geti þyrlað upp ryki af þurri jörðu.
Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri, s.s. lungnasjúkdóma og astma ættu að forðast staði þar sem hætta er á rykmengun þessa dagana s.s. miklar umferðargötur, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Uppspretta svifryks í dag er meðal annars frá uppspændu malbiki eftir nagladekk, úr pústi bíla og ryki sem bifreiðar þyrla nú upp. Reykjavíkurborg sópar og þvær götur og stíga um þessar mundir.