Þarf ekki að greiða skaðabætur vegna Kjúklingastrætis

Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknu íslenska ríkisins af kröfu íslensks friðargæsluliða vegna sjálfvígsárásar, var gerð í Kjúklingastræti í Kabúl í Afganistan árið 2004. Krafðist maðurinn þess að viðurkennd yrði bótaskylda ríkisins vegna afleiðingar árásarinnar en því hafnaði dómurinn líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur. 

Sá sem málið höfðaði, Friðrik Már Jónsson, starfaði sem flugumferðarstjóri á flugvellinum í Kabúl og var með þegar farið var í verslunarferð í Kjúklingastræti til að kaupa teppi í október 2004. Hann var ekki meðal þeirra þriggja Íslendinga, sem slösuðust mest í árásinni og slapp að mestu við líkamlega áverka, að heyrnarskemmd undanskilinni. Hins vegar komu fram síðbúin áhrif á heilsu hans, í formi áfallastreituröskunar, sem leiddu til þess að allt líf hans fór úr skorðum.

Segir í Hæstarétti að ekki hafi verið ágreiningur um að Friðrik hefði orðið fyrir heilsutjóni sem rakið yrði til árásarinnar. Talið var að ekkert benti til annars en að sprengjuárásin hefði verið ófyrirséð og að hending ein hefði ráðið því að íslensku friðargæsluliðarnir hefðu orðið fyrir henni. Í því ljósi yrði að hafna öllum málsástæðum Friðriks þess efnis að árásina mætti rekja til vanmats á aðstæðum og ófullnægjandi verndar, vanþekkingar og vanþjálfunar hans sjálfs og samstarfsmanna hans.

Þótt ekki væru efni til að fallast á með héraðsdómi að lengd dvalar þeirra í versluninni í umrætt sinn hefði ekki aukið hættu á ófarnaði sem þessum fékk það því ekki breytt að Friðrik var þar staddur í einkaerindum, sem vörðuðu ekki skyldur hans í starfi hjá íslenska ríkinu. Að þessu gættu var íslenska ríkið  sýknað af kröfu Friðriks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert