Áætla má að 31 þúsund manns lifi undir tekjumörkum á Íslandi, eða um 10 prósent þjóðarinnar. Ísland stendur sig vel að þessu leyti samanborið við aðrar Evrópuþjóðir.
Guðný Björk Eydal félagsráðgjafi hélt erindi á ráðstefnu sem markaði upphaf Evrópuársins gegn fátækt og haldin var í Iðnó í dag. Í máli hennar kom fram að frá árinu 2004 hefur Ísland komið vel út í samræmdum mælingum á fátækt í Evrópulöndum. Um tíu prósent þjóðarinnar lifi hér undir tekjumörkum, sem er með því lægsta sem mælist í Evrópu. Sambærilegar tölur séu á bilinu tíu til tuttugu prósent í öðrum Evrópulöndum.
Hún spyr hins vegar hvort það sé viðunandi fyrir Íslendinga að tíu prósent þjóðarinnar lifi undir tekjumörkum eftir það góðæri sem hér ríkti á löngu tímabili. Þau tekjumörk miða við 60 prósent af miðgildi tekna í landinu og námu árið 2009 rúmum 160 þúsundum fyrir einstakling.