Áhrif fyrningarleiðar í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa boðað koma langverst niður á landsbyggðinni, sagði Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, á opnum fundi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í fyrrakvöld.
Ef fyrningarákvæði verður tekið upp mun að sögn Ragnars markaðsvirði kvóta lækka. Verði sem dæmi ákveðið að innkalla 5% aflaheimilda á ári muni það valda nálægt 200 milljarða króna lækkun í virði kvóta á landinu öllu. Það mun aftur valda því að bankar þurfa í mörgum tilfellum að innkalla veð. Bendir Ragnar á að þá muni mörg sjávarútvegsfyrirtæki sem nú þegar standa tæpt verða gjaldþrota.
Áhrifin verða mest á landsbyggðinni þar sem hlutur sjávarútvegs í efnahagslífinu er mikill. Sem dæmi mun eignarýrnun vegna lækkaðs virðis kvóta á höfuðborgarsvæðinu deilt niður á hvern íbúa nema um 189 þúsundum króna. Eignaminnkunin á Vestfjörðum verður hins vegar í námunda við 2,4 milljónir á mann eða meira en 10 sinnum meiri, en 1,2 milljónir á mann að meðaltali á landsbyggðinni, segir Ragnar.
Sjá nánari umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.