Athugasemd við frétt um Norrænu

Smyril Line
Smyril Line Steinunn Ásmundsdóttir

Eftirfarandi er athugasemd Norrænu Ferðaskrifstofunnar vegna fréttar sem birtist í Morgunblaðinu sl. miðvikudag.

„Svo virðist sem umræddur farþegi, Gunnar Sigurðsson eigi erfitt með að halda sig við staðreyndir og sannleika þessa máls og því sjáum við okkur knúin til að leiðrétta nokkuð af því sem hann leyfir sér að halda fram og eftir honum er haft í Morgunblaðinu þann 24. mars s.l.

Að sögn kom Gunnar ásamt fjölskyldu sinni á skrifstofu Smyril Line í Reykjavík, líklega hálfum mánuði áður en ferðin skyldi farin til Esbjerg og fékk þá að vita að unnið væri samkvæmt reglum frá skipafélaginu um að ekki væri heimilt að bóka ferð nema með tveggja sólarhringa fyrirvara, eða eftir að Norröna væri farin frá Þórshöfn áleiðis til Seyðisfjarðar.

Í þessari heimsókn hjónanna á skrifstofuna var rætt um gistimöguleika um borð og þeim tjáð að á grundvelli bókana það sem af væri vetri ætti að vera mögulegt að fá pláss og klefa fyrir fjölskylduna, en engin loforð eða staðfesting gefin um eitt eða neitt í því sambandi, enda starfsfólki óheimilt með öllu að veita slíkt.

Mánudaginn 22. mars s.l. þegar þau koma svo aftur á skrifstofuna til að bóka sig, kemur í ljós við eftirgrennslan að fullbókað var í klefa frá Þórshöfn til Esbjerg og einungis fragtpláss til ráðstöfunar fyrir bifreiðar. Við þessi tíðindi brást Gunnar hinn versti við svo erfitt var fyrir saklaust starfsfólk að sitja undir.

Þrátt fyrir þetta var hafist handa við að reyna að gera eins gott úr vandanum eins og mögulegt var og fékkst leyfi til að fjölskyldan fengi að ferðast í svefnpokaplássi, sem raunar er bannað samkvæmt starfsreglum Smyril Line vegna ónæðis sem ung börn geta valdið öðrum farþegum á svefntíma, jafnframt því sem bifreiðinni var komið fyrir með pöntun í fragtrými skipsins. Rækilega var skýrt fyrir þeim hvernig svefnaðstaðan væri og hvaða takmarkanir væru þar.

Hér er því enn hallað réttu máli af hans hálfu.

Af framansögðu má ráða að fyllyrðingar Gunnas í Morgunblaðinu um að hann hafi verið "margsvikinn" eru alrangar og ætti hann raunar að biðja viðkomandi starfsfók afsökunar á að bera á það rangar sakargiftir .

Að lokum skal sérstaklega tekið fram að í þau 25 ár sem undirritaður hefur starfað að þessum ferðamáta og haft forræði á Norrænu Ferðaskrifstofunni hefur aldrei komið til slíkra ásakana eða áburðar sem hér um ræðir og þykir mér það mjög miður að fram úr skarandi gott starfsfók verði að sitja undir slíku.

Annars óska ég umræddri fjölskyldu góðrar ferðar og velfarnaðar í nýjum heimkynnum.

Jónas Hallgrímsson

Stjórnarformaður Norrænu Ferðaskrifstofunnar ehf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka