Auknar heimildir Samkeppniseftirlits

mbl.is/Heiðar

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að vísa frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á samkeppnislögum til þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingis. Verði frumvarpið að lögum fær Samkeppniseftirlitið nýjar og víðtækari heimildir til að grípa inn í starfsemi fyrirtækja eða markaði, m.a. með því að skipta upp markaðsráðandi fyrirtæki ef samkeppni er takmörkuð eða hefur verið raskað.

Samkvæmt frumvarpinu verður Samkeppniseftirlitinu heimilt að beita nauðsynlegum úrræðum til að breyta atferli eða skipulagi fyrirtækja sem með háttsemi eða vegna aðstæðna á markaði koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni. Þannig er heimilt að beita þessu ákvæði ef skipulag eða uppbygging fyrirtækis hamlar samkeppni, eða ef athafnir eða athafnaleysi fyrirtækisins gera slíkt hið sama.  Beita má ákvæðinu þrátt fyrir að ekki sé brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaganna.

Ljóst er að fyrirtæki geta verið í slíkri yfirburðastöðu á markaði að tilvist þeirra í óbreyttu formi útiloki eða takmarki samkeppni – þrátt fyrir að ekki hafi átt sér stað samruni eða brot fyrirtækisins á bannreglum samkeppnislaganna. Sú röskun sem getur leitt af framangreindu getur verið jafn alvarleg fyrir neytendur og brot á samkeppnislögunum og verður með þessu frumvarpi innleidd ný úrræði fyrir samkeppnisyfirvöld til að bregðast við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert