Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði eftir fund með Dominique Strauss-Khan, framkvæmdatjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að hann væri ágætlega bjartsýnn á að stjórn sjóðsins muni afgreiða innan skamms tíma endurskoðaða efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins síðdegis en mbl.is hefur ekki náð tali af Steingrími eftir fundinn, sem haldinn var í Washington og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sat einnig.
Haft var eftir Steingrími að hvorki staða Icesave-málsins né spurning um lán frá Norðurlöndunum eigi að koma í veg fyrir endurskoðun á efnahagsáætluninni.
Steingrímur sagði við Morgunblaðið í dag eftir að hafa átt fundi með fulltrúum nokkurra landa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að vonir standi til að endurskoðuninni ljúki í apríl.