Lögreglan á Hvolsvelli segir að umferð hafi gengið vel í gær en varla hafi hægt á henni fyrr en upp úr miðnæitti. og síðustu bílar hafi verið á ferðinni milli tvö og þrjú. Að sögn varðstjóra er búist við enn meiri umferð á gossvæðinu í dag. Hann hvetur alla til að gæta varúðar.
Fólki er heimilt að fara gangandi upp á Fimmvörðuháls en það gerir það á eigin ábyrgð. Almannavarnanefnd vekur athygli á því að veður getur breyst hratt á þessu svæði. Gangan er ekki nema fyrir þá sem eru vanir fjallgöngum að vetrarlagi að fara upp á Fimmvörðuháls. Gangan upp á hálsinn tekur um fimm klukkutíma.
Slysavarnafélagið Landsbjörg bendir þeim sem ætla að ganga upp á Fimmvörðuháls á að hafa eftirfarandi atriði í huga:
• Fylgist með veðurspá og farið eftir henni
• Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum
• Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um
• Góður fatnaður er að sjálfsögðu algert lykilatriði. Best er að klæðast nokkrum lögum af fatnaði sem verður að anda og ysta lagið þarf að vera vatnshelt.
• Takið með lágmarks skyndihjálparbúnað og orkuríkan mat.
• Góður fjarskiptabúnaður er mikilvægt öryggistæki og kunnátta á hann verður að vera til staðar. VHF talstöð eða NMT sími geta skipt sköpum ef eitthvað ber útaf og til þess að geta látið vita um breytta áætlun.
• GPS staðsetningartæki og áttavita ættu allir að hafa meðferðis. Kunnátta til að nota slík tæki þarf auðvitað að vera til staðar.
• Svefnpoki, einangrunardýna og vatnsheldur utanyfirpoki eða lítið tjald geta skilið á milli lífs og dauða ef til þess kemur að ferðalangur þarf að liggja utandyra af einhverjum orsökum
• Betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur.