Gosórói var jafn í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Allt að tíu jarðskjálftar mældust í nótt, sumir hverjir yfir tvö stig. Meðal annars mældust skjálftar í grennd við Kötlu. Að sögn jarðeðlisfræðings er ekki búið að fara yfir þá né staðsetja með nákvæmni.
Skjálftarnir sem mældust í nótt og undir morgun eru ívíð stærri en undanfarna daga, frá 2-2,5 stig.
Bergþóra Þorbjarnardóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir rétt að samkvæmt skjálftavefsjá Veðurstofunnar hafi skjálftar mælst við Kötlu. Hún segir það þó ekki hafa neina sérstaka þýðingu enn, enda ekki margir það sem af er morgni. Afar náið er fylgst með gangi mála á svæðinu.