„Þetta var ágætur fundur og við reyndar funduðum svo með ýmsum öðrum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta gekk í sjálfu sér allt ágætlega og ég er ágætlega bjartsýnn á að okkur takist að þoka þessari áætlun áfram,“segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra um fundinn með framkvæmdastjóra AGS í dag.
Gylfi, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri sátu einnig fundinn sem horft hafði verið til í ljós þeirrar miklu tafar sem orðið hefur á lánafyrirgreiðslu sjóðsins.
Ekki búnir að negla niður dagsetningar
- Hvaða tímaáætlun ertu að horfa á í þessu samhengi?
„Það er ekki búið að negla niður neinar dagsetningar en vonum að það skýrist á næstu vikum.“
- Það mátti lesa úr orðum Steingríms í gærkvöldi að hann væri að vonast til að verið væri að horfa á apríl í þessu samhengi. Þú minnist á nokkrar vikur. Telurðu of snemmt að miða við apríl?
„Nei, ég held án þess að vilja lofa neinu eða vekja falsvonir þá held ég að það sé alls ekkert fráleitt að miða við apríl.“
- Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, túlkaði stöðuna þannig í viðtali við blaðamann í gær að það væri fyrir Ísland að hafa stuðning Noregs og sjóðsins sjálfs til að tryggja framgang endurskoðunarinnar. Ertu sammála þessu mati eða telurðu að staðan sé flóknari?
„Ég vil nú í sjálfu sér ekki taka neina afstöðu til þessa mats en auðvitað þarf að afla bæði stuðnings og fjármagns til þess að áætlunin nái fram að ganga. Og við erum bara að vinna í því.“
Ánægðir með frammistöðu íslenskra stjórnvalda
- Geturðu sagt mér frá fundinum með Strauss-Kahn. Steingrímur sagði við blaðamann að Ísland hefði tryggt sér inneign hjá sjóðnum vegna þess þess hvernig þið hefðuð haldið á málum. Vék Strauss-Kahn eitthvað að þessu?
„Það var ekki annað að merkja á honum og öðrum sem við ræddum við að menn væru að mörgu leyti mjög ánægðir með hvernig hefði spilast úr efnahagsáætluninni á Íslandi og í raun og veru endurreisn íslenska hagkerfisins.
Allar helstu þjóðhagsstærðir sem horft er til í sambandi landsframleiðslu, atvinnuleysi, fjárlagahalla og annað það er allt saman allavega ekki vera en gert var ráð fyrir og í sumum tilfellum eitthvað betra. Þannig að það er alveg óhætt að fullyrða að skilningur manna í Washington er að áætlunin gangi ágætlega.“
- Hvaða skýringar fenguð þið sem hefur orðið á afgreiðslu annars hlutans?
„Hann var svo sem ekkert að skýra það sérstaklega á þessum fundi en það liggur alveg fyrir að þetta Icesave-mál hefur flækst fyrir áætluninni. Það er í raun og veru ekkert annað sem er til vandræða.“
Gagnrýndu framgöngu sjóðsins
- Voruð þið harðorðir vegna tafarinnar og gagnrýndu þið sjóðinn fyrir þetta?
„Já, við höfum bæði á þessum fundi og á mörgum öðrum fundum tekið það skýrt það fram að við teljum það óásættanlegt hvernig áætlunin hefur tafist. Og þannig að það hefur ekkert farið fram hjá neinum hérna. Við ítrekuðum það á þessum fundi en fundurinn var svo sem í vinsamlegum anda þannig að við vorum ekkert sérstaklega harðorðir.“
- Hefur þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave og andstaða sem er við málið kunni jafnvel að hraða endurskoðuninni, þ.e.a.s. að sjóðurinn og aðildarríki AGS geri sér nú skýrari grein fyrir því að það sé ekki hægt að ná meiri árangri með þessum þrýstingi í bili?
„Ég vil nú svo sem ekkert vera með neina spádóma um það en auðvitað fylgjast allir með umræðunni og stjórnmálunum á Íslandi og átta sig á því hvernig staðan er þar. Þannig að það hefur áhrif á það hvernig menn túlka stöðuna.“