„Það er ekkert lát á hrauninu sem rennur hratt niður Hrunagilið og stefnir í Þórsmörk,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Eins og sjá má hefur hraunið runnið um langan veg, eða um einn kílómetra, segir Magnús Tumi.
Snjór og ís í Hrunagili hefur minnkað mikið, eins og sést á myndinni, og myndast því ekki jafnmikill gufumökkur þar sem hraunið rennur fram.
Búist er við miklum straumi innlendra og erlendra ferðamanna sem vilja berja gosið í Eyjafjallajökli augum í dag og um helgina, enda spáð góðu veðri. Viðbúnaður lögreglunnar á Hvolsvelli verður m.a. af þeim sökum töluvert meiri um helgina en gengur og gerist. Alls verða sex lögreglubílar á ferð um svæðið, þar af þrír frá ríkislögreglustjóra. Einnig fær lögreglan á Hvolsvelli aðstoð frá Selfossi.
Þuríður Aradóttir, markaðs- og kynningarstjóri í Rangárþingi eystra, segir að þegar sé, með aðstoð Vegagerðarinnar, byrjað að setja upp bækistöð inn við bæinn Fljótsdal sem er einna næst gosstöðvunum og er ætlunin að ljúka verkinu fyrir helgina. „Við erum að létta svolítið á fólkinu sem býr á bænum, svo að það fái ekki allan strauminn upp á hlað hjá sér,“ segir Þuríður.
Sjá nánar um eldgosið í Morgunblaðinu í dag.