Nákvæm úrvinnsla gervihnattamynda sýnir hvernig jarðskorpan þandist út í kringum Eyjafjallajökul frá því í september í fyrra og fram til 20. mars þegar eldgosið hófst. Frá þessu er greint á heimasíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Af myndunum má sjá hvernig kvikuinnskotið undir Eyjafjallajökli hefur valdið tilfærslu jarðskorpunnar sunnan og norðan jökulsins á undanförnum mánuðum.
Bylgjuvíxlmyndirnar eru búnar til úr myndum sem hið þýska TerraSAR-X gervitunglið safnaði. Rannsóknir á þessum gögnum eru unnar í samvinnu Norræna eldfjallasetursins á Jarðvísindastofnun, Tækniháskólans í Delft í Hollandi og Háskólans í Wisconsin-Madison, USA. Myndirnar eru unnar af Andy Hooper í Delft.
Greinin á síðu Jarðvísindastofnunar