Fréttaskýring: Kemur eldgosið út í gróða?

Varla er það tekið út með sældinni að þurfa að yfirgefa í skyndingu heimili sitt vegna eldspúandi nágranna og þurfa síðan að bíða dögum saman í óvissu um framhaldið. En stundum er talað um „gott túristagos“ og svo gæti farið að gosið á Fimmvörðuhálsi yrði eitt af þeim; enn er ekki hægt að tala um raunverulegt tjón af umbrotunum.

Þegar hefur fjöldi fólks af höfuðborgarsvæðinu farið í bíltúr austur til að sjá gosið, fleiri eru væntanlegir og margir njóta veitinga og annarrar þjónustu í ferðinni. Fyrirtækið Arcanum í Mýrdalnum, sem býður upp á vélsleðaferðir yfir Mýrdalsjökul að Fimmvörðuhálsi, hefur ekki undan að sinna útlendingum sem eiga ekki orð þegar þeir sjá jarðeldana – og borga fúlgu fjár fyrir ferðalagið.

Þyrlufyrirtæki bjóða upp á ferðir frá Rangá og Morgunblaðsmaður sá einnig fjórar flugvélar í einu yfir jarðeldunum. Sagt er að erfitt sé að fá leigða litla vél í landinu, allt uppselt. Gosið gæti vel komið út í umtalsverðum gróða fyrir ferðaþjónustuna.

 Glænýtt og ilmandi grjót

Og þegar gosinu lýkur verður hægt að sýna gestum glænýtt og ilmandi grjót, beint úr sjóðheitum pottinum. Nýtt hraun er spennandi.

Um 30 aðilar hafa tekjur af ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra, einkum er um að ræða bændagistingu en undir sveitarfélagið heyrir líka Þórsmörk og Edduhótelið á Skógum. Þuríður Aradóttir, sem er markaðs- og kynningarstjóri hjá sveitarfélaginu, stýrir upplýsingamiðstöðinni í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Hún segir að bæði ferðaskrifstofur og hótel hafi haft samband til að kanna hvað hægt sé að sýna útlendingum. Þeir hefðu reyndar þegar sést á svæðinu þótt mest sé um innlenda ferðamenn.

Menn eru ekki að tvínóna við hlutina, þegar er búið að opna tjaldstæði sem annars hefðu fyrst verið tilbúin um páskana. Þuríður segir að með aðstoð Vegagerðarinnar sé byrjað að búa til bækistöð inn við bæinn Fljótsdal, sem er einna næst gosstöðvunum, og er ætlunin að ljúka verkinu fyrir helgina.

„Við erum að létta svolítið á fólkinu sem býr á bænum svo að það fái ekki allan bílastrauminn upp á hlað hjá sér. Þetta verður á aurnum fyrir neðan bæinn og þar ætlum við að hafa bílaplan og þurrklósett. Þar verða fyrstu dagana og kannski yfir páskana björgunarsveitarmenn á vakt, þeir munu reyna að tryggja að fólk sem ætlar að skoða gosið sé ekki að fara lengra en bíllinn ræður við.

 Fjallvegir ófærir vegna bleytu

Ef menn fara inn fyrir Þórólfsfell eru þeir í rauninni komnir á fjallvegi. Vegagerðin opnar ekki strax þennan veg fyrir sumarumferð af því að hann tekur ekki við verulegri umferð svona snemma vegna aurbleytu. Og þetta er líka vegna náttúruverndarsjónarmiða. Þeir vilja sjá til þess að menn á stórum bílum séu ekki að fara út fyrir veginn.“

Hótel Rangá er fjögurra stjörnu gististaður og strangt til tekið vestan við mörk Rangárþings eystra en oft tekinn með í áætlunum um þróun ferðaþjónustunnar á austursvæðinu. Jón Ingi Jakobsson, rekstrarstjóri Hótels Rangár, segir hótelið hafa höfðað mjög til erlendra gesta með því að minna á norðurljósin. En nú sé hægt að bjóða upp á nýtt ævintýri.

„Að sjálfsögðu munum við taka þátt í leiknum og við ætlum að halda fund í dag þar sem við ætlum að fara yfir stöðuna, hvernig við munum auglýsa þetta,“ segir Jón Ingi.

 Miklar tekjur af ferðamönnum

Gerð var könnun 2008 á tekjum af ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra. Tölurnar eru auðvitað ekki nákvæmar en áætlað að þeir sem láta duga að keyra í gegn eyði að meðaltali 1000-3000 krónum á mann.

Þeir sem staldra eitthvað við að ráði eyða hins vegar 6000-9000 krónum á mann og margir að sjálfsögðu mun hærri fjárhæð, ekki síst hótelgestir.

Alls er talið að ferðamenn skilji að jafnaði eftir rúmlega 500 þúsund kr. á íbúa eða nær 800 milljónir króna í sveitarfélaginu árlega.

Um 1800 manns búa í Rangárþingi eystra, þar af 800 á Hvolsvelli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert