„Við vorum á báðum áttum enda blönk eftir hrunið og maður hugsar sig tvisvar um áður en maður ræður sér lögfræðing,“ segir Ari Svavarsson. SP-Fjármögnun stefndi Ara og konu hans, Ágústu Malmquist, í janúar sl. vegna eftirstöðva myntkörfuláns. „En þegar maður fer að skoða málið þá er eiginlega ekki verjandi annað en að taka á móti.“
Krafa SP-Fjármögnunar á hendur hjónunum hljómaði upp á 3,5 milljónir, sem er svipuð upphæð og þau fengu að láni er þau keyptu bílinn, Ford pallbíll, árið 2006. „Við erum listamenn og notuðum bílinn mikið við að viða að okkur efni úr náttúrunni,“ segir Ari.
Lengi vel stóðu þau í skilum með greiðslur af bílnum, sem fram að hruni námu um 50.000 kr. á mánuði. Eftir það tvöfölduðust þær. Hjónin greiddu þó inn á bílinn eftir bestu getu og hafa alls greitt um 2,2 m. kr. Þeim hugnaðist þó ekki það úrræði sem SP bauð – að lengja lánið um átta mánuði og mánaðargreiðslurnar yrðu 25-30% hærri en fyrir hrun. „Greiðslubreytingin fól líka í sér að ekki var hægt að segja upp samningnum og á það gátum við ekki fallist.“
Ari og Ágústa hættu að greiða af bílnum í apríl 2009 og í september var bíllinn tekin af þeim. „Heim til okkar mættu tveir fullorðnir menn og tóku bílinn. Þeir sýndu hvorki dómsúrskurð né aðfararbeiðni.“
Í apríl höfðu eftirstöðvar lánsins numið 3,7 milljónum kr. en námu nú með vaxtakostnaði og öðru 5,1 m.kr. Uppítökuverð bílsins nam 2,3 m.kr. að mati SP, en hann er í dag metinn á rúmar 3 m.kr. hjá Bílgreinasambandinu. Frá var svo dreginn 350.000 kr. viðgerðarkostnaður og 15% umsýslukostnaður. Uppgjörsmatið hljóðaði því upp á 1,6 m.kr.
„Við vorum líka rukkuð um aukahluti, eins og stóran dráttarkrók sem ég sýndi vörslusviptingarmönnunum að ég gekk frá inn í bílinn. Það er eins og það sé sjálfvirkt smurt á pakkann,“ segir Ari.
Eftirgrennslan lögræðings, sem þau réðu sér eftir að stefnan barst í janúar, sýndi að bíllinn hafði verið seldur í lok október fyrir 2,3 m.kr. án þess að SP léti gera við hann. Kaupandinn þurfti að láta gera við hann sjálfur. Þó að rúmir þrír mánuðir væru liðnir frá sölu bílsins sem seldur var á 2,3 m.kr. ekki 1,6 m.kr. hafði krafan ekki breyst. Breyttist hún raunar ekki fyrr en í þessari viku að SP sendi þeim söluuppgjör þar sem eftirstöðvar samningsins eru lækkaðar um rúmar 500.000 kr.
„Ekkert af þessu fengum við að vita og krafan á hendur okkur var óbreytt þótt nægur tími hafi verið til að breyta henni.“ Ari bætir við að sá skammi tími sem það tók að selja bílinn réttlæti líka varla hinn háa umsýslukostnað. „Þetta er skuld sem stenst ekki og eins og málið horfir við okkur voru þeir að rukka okkur fyrir hluti sem aldrei voru gerðir.“
Árni telur einnig mega draga löggildi vörslusviptinga fjármögnunarfyrirtækjanna í efa. Vörslusvipting sem hluti af aðfararlögum krefjist ákveðins ferils í samvinnu við sýslumann. Í smáu letri aftan á skilmálum bílalána sé fólk hins vegar látið semja sig frá aðfararlögum sem í raun sé ekki lögmætt.
„Var þetta látið gilda afturvirkt fyrir allar þær bifreiðir sem teknar hefðu verið vörslusviptingu frá því fyrir hrun. Fjöldi mála var því tekinn upp og fjárhæð kröfunnar lækkuð og/eða endurgreidd þeim einstaklingum sem gert höfðu upp eftirstöðvarnar.
Ferlið er afar tímarfrekt og algengt er að hvert mál taki tvo til fjóra mánuði þótt einstaka mál hafi tekið lengri tíma. Í uppgjörsbréfi sem sent er til skuldara í kjölfar vörslusviptingar kemur fram fjárhæð eignfærslu bifreiðar skv. viðmiðunarverðskrá Bílgreinasambandsins. Frá þeirri tölu er dreginn áætlaður viðgerðarkostnaður samkvæmt mati óháðrar löggiltrar skoðunarstofu.
Þegar bifreiðin er seld er skuldara sent söluuppgjörsbréf. Ef söluverð bifreiðar að frádregnum sölulaunum og öðrum kostnaði er hærra en eignfærsluverð er raunverulegt söluverð ávallt látið gilda en ekki matsverð. Hafi skuldari greitt eftirstöðvar upp er mismunurinn endurgreiddur, að öðrum kosti kemur hann til lækkunar á kröfu. Sé söluverð hins vegar lægra ber SP-Fjármögnun það tap.
Án þess að tjá sig um einstök mál viðskiptavina okkar er rétt að geta þess að í öllum tilfellum er unnið samkvæmt ofangreindri reglu sem og öðrum þeim verklagsreglum sem í gildi eru hjá fyrirtækinu,“ segir í yfirlýsingunni.