Fréttamiðlar erlendis hafa margir hverjir greint frá mögulegum afleiðingum Kötlugoss. Nú síðast hefur AP fréttastofan eftir bandarískum vísindamanni að gos í Kötlu geti leitt til kólnunar loftslags á heimsvísu. Einnig að sagan sýni að Kötlugos fylgi alltaf gosi í Eyjafjallajökli. Spurningin sé aðeins hvenær.
Bandaríski vísindamaðurinn Gary Hufford sem starfar hjá veðurstofu Bandaríkjanna í Alaska segir í samtali við AP fréttastofuna að þegar Katla gaus árið 1755 hafi íbúar Bandaríkjanna þurft að þola mikinn frostavetur. Til að mynda hafi Mississippi verið ísi lagt allt að New Orleans auk þess sem sérlega kalt hafi verið á austurströndinni.
Fox News í Bandaríkjunum benti í vikunni á að öll heimsbyggðin gæti verið í stórhættu ef umbrotin í Eyjafjallajökli yrðu til að hrinda af stað Kötlugosi. Það yrði margfalt verra og gæti valdið geysilegu flóði á Íslandi. Eitraðar gufur og aska sem bærist upp í háloftin myndu gætu umturnað loftslagi heimsins.
Rætt var John Rundle, jarðskjálftafræðing og jarðfræðing í Kaliforníu, sem tók undir áhyggjur andstuttrar fréttakonunnar af málinu. Rundle minnti á að tvö geysimikil gos í Indónesíu á 19. öld hefðu kæft sumarið næsta ár um mestallan heim. Minnst var á Skaftáreldana 1783, sem einnig ollu uppskerubresti og kólnandi veðri.
En Rundle endaði samt á að segja fréttakonunni að anda rólega, hún væri ekki í lífshættu.
Þar sem Gary Hufford tekur Kötlugosið 1755 sem dæmi er ekki úr vegi að rifja upp samtímalýsingu Jóns Sigurðssonar sýslumanns, en hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins 30. október 1955, í tilefni af því að 200 ár voru frá gosinu:
„Árið 1755 spjó Katla föstudaginn 17. október, litlu fyrir hádegi, með svo miklum jarðskjálfta, að það var sem húsum vaggað væri þann dag til enda og nóttina eftir, svo menn þorðu ekki inn í þau að fara. Um kvöldið komu eldingar og reiðarslög, og heldust alla þá nótt.
Þann 18. voru skruggur með eldingum. Þann 19. stóð mökkurinn í tveim stöðum upp úr jöklinum, annar í fullt norður frá mínum bæ, Holti í Mýrdal, en hinn í norður af Hafursey.
Þann 20. voru ógurlegar eldingar með stórbrestum, helzt tvisvar um daginn. Skalf þá allt og titraði og glamraði í húsum, svo þau skemmdust víða. Þann 21. var mikill jarðskjálfti.
Þann 22. sneri vindur sér til norðurs. Kom þá öskufall hér yfir Mýrdalinn, svo sporrækt varð á jörð og ekki hálfbjart í húsum. Um kvöldið sneri vindurinn sér til útnorðurs. Lagði þá mökkinn austur af jöklinum. Gekk það til nóns. Kom þá aftur öskufall, sem helzt alla nóttina til dögunar.
Þann 23., 24., 25., 26 og 27 - alla þessa daga var ýmist jarðskjálfti eða eldingar með reiðaslögum.“
Hufford tekur raunar einnig sem dæmi þegar Pinatubofjall á Filippseyjum gaus árið 1991. Fjallið spúði miljónum tonna af ösku og eimyrju upp í 15 km hæð yfir jörðu. Mikið af gosefnum dreifðist um efra veðrahvolfið og varð vart víða um heim. Hitastig um allan heim lækkaði um fjórar gráður í um það bil eitt ár.
Því má svo við bæta að Skaftáreldar árin 1783 til 1784 höfðu einnig víðtæk áhrif því þeir ollu kólnun um hálft stig á norðurhveli í eitt ár eða svo.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði við mbl.is, að mikil óvissa fylgi því að tengja saman veðurfarsatburði og löngu liðin gos. Engar mælingar liggi fyrir og því erfitt að slá einhverju föstu. Til að hafa áhrif á veðurfar þurfi gosin að vera gríðarlega mikil, s.s. líkt og Pinatubu og í Skaftáreldum.
Ari Trausti segist ekki telja að Kötlugos líkt hinu síðasta sé nægilega stórt til þess að hafa umtalsverð áhrif á veðurfar á Norðurhveli, og hvað þá annars staðar. Hann segir þó sögulega rétt að Katla byrji að gjósa á meðan eða skömmu eftir að gosi lýkur í Eyjafjallajökli. Það hafi gerst í síðustu fjögur skipti, sem hægt er að ársetja gos. „En hvert það sé alltaf þannig er annar handleggur og erfiðara um að spá.“
Stærsta Kötlugosið sem vitað er um með vissu eftir 11. öldina var árið 1755. Þá spúði eldfjallið í það minnsta 1,5 rúmkílómetrum af gjósku, en það rúmmál er meira en tvöfalt það magn sem upp kom í Kötlugosinu 1918, s.s. síðasta Kötlugosi.
Í grein Ara Trausta um Kötlugos í Lesbók Morgunblaðsins 25. september 1999 er lýsing á gosinu 1918:
„Þegar Katla bærði á sér 12. október 1918 höfðu snarpir jarðskjálftakippir fundist í nágrenni Mýrdalsjökuls. Gosmökkur braust upp úr jöklinum um eittleytið og gjóskan barst í austur. Síðdegis heyrðust dynkir þegar hlaupið braust fram úr vestanverðum Kötlujökli. Þar brotnaði upp hrikagjá í jökuljaðarinn. Skömmu síðar kom einnig fram hlaupvatn og -eðja austar, og mikið af Mýrdalssandi hvarf undir flauminn. Fórst þá nokkuð af hrossum og sauðfé.
Daginn eftir var hlaupið að mestu rénað og hafði þá valdið t.d. tjóni á gróðurlendi í Álftaveri. Nokkuð jafnfallin en þunn gjóska var í Skaftártungu og aska barst til Síðu og eitthvað þar ausur fyrir. Fjöldi ísjaka lá á sandinum og voru sumir á stærð við stór fjölbýlishús, eftir myndum að dæma.“