Betra að búa sig vel

Eldgosið var tilkomumikil sýn í nótt.
Eldgosið var tilkomumikil sýn í nótt. Halldór Kolbeins

Búist er við mikilli umferð um Rangárþing í dag, að sögn Kjartans Þorkelssonar sýslumanns. Umferð var farin að aukast í morgun. Sveitarfélagið hefur útbúið aðstöðu fyrir ferðafólk sem vill skoða eldgosið í Eyjafjallajökli inn við Fljótsdal. Kalt er í veðri og gjóla svo fólki er ráðlagt að búa sig vel.

Kjartan sagði að fólk gæti gengið upp í Þórólfsfell frá aðstöðunni í Fljótsdal vilji það fá góða sýn til gosstöðvanna.  „En það er kalt og svolítil gola og betra að fólk sé vel útbúið,“ sagði Kjartan.

Almannavarnanefnd svæðisins mun ekki koma saman um helgina nema aðstæður breytist eitthvað, að sögn Kjartans. Hann sagði að fylgst yrði með stöðunni með almannavarnadeild ríkislögreglustjór og vísindamönnum.  „Við bara fylgjumst með og erum á vaktinni,“ sagði Kjartan.

Veðurspá Veðurstofu fyrir Fimmvörðuháls

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli, laugardag 27.03 og sunnudag 28.03: Norðaustan og norðan 8-13 m/s og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum vindhviðum á svæðinu (allt að 13-18 m/s). Frost 3 til 9 stig. Útlit er fyrir að hvessi seint á sunnudag, líklega þó ekki fyrr en um kvöldið.

Veðurspáin var gerð kl. 9.32 þann 27. mars.

Margir fylgdust með eldgosinu í gærkvöldi.
Margir fylgdust með eldgosinu í gærkvöldi. Halldór Kolbeins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert