Búið að bjarga bátnum

Lágey hífð upp á pall bílsins.
Lágey hífð upp á pall bílsins. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Við erum búnir að bjarga bátnum, það liggur ljóst fyrir,“ segir Guðmundur Salómonsson í Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík, sem ásamt fleirum hefur unnið við að bjarga Lágey. Báturinn strandaði í fyrrinótt skammt frá Héðinshöfða í Skjálfanda.

Brugðið var á það ráð að bakka sérstökum herbíl út í fjöruna, og lyfta svo bátnum með tveimur hjólaskóflum aftan á pall bílsins. „Báturinn hangir í spotta yfir pallinum og er að lenda á honum í þessum töluðu orðum,“ segir Guðmundur. „Þannig að við höfum ekki áhyggjur af þessu lengur.“

Bílinn er mjög öflugur, segir Guðmundur, og ætti ekki að eiga í vandræðum með að keyra bátinn í land þegar búið er að binda hann fastan á pallinum.

Reynt var að draga bátinn á flot í flóði í gær, en dráttartaugin gaf sig. Þó var búið að bjarga öllu lauslegu úr bátnum, svo sem veiðarfærum, afla og olíu.

Skipverjarnir á Lágey gátu vaðið í land við Héðinshöfða
Skipverjarnir á Lágey gátu vaðið í land við Héðinshöfða mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert