Ekkert lát á gosinu

Gos á Fimmvörðuhálsi
Gos á Fimmvörðuhálsi Árni Sæberg

Svo virðist sem ekkert lát sé á eldgosinu í Eyjafjallajökli, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur. Hann segir hraunuð nú ýmist streyma niður í Hrunagil eða Hvannagil, eða breiða úr sér uppi á sléttunni.

„Það hefur verið að þykkna jafnt og þétt þarna uppi á sléttunni, jafnframt því sem það streymir niður. Gosið hefur heldur aukist ef eitthvað er,“ segir hann.

Talið er að um fimm þúsund ferðalangar hafi lagt leið sína að gosstöðvunum í dag og segir lögreglan á Hvolsvelli að enn séu einhver hundruð ferðalanga nálægt gosstöðvunum. Talsverður fjöldi ferðamanna var illa búinn og segir lögreglan þó nokkra hafa örmagnast og þurft á hjálp björgunarsveitarmanna að halda.

Búið er að loka gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls, annars vegar sökum veðurs, en ellefu stiga frost og mikið rok er á svæðinu. Hins vegar var talið rétt að loka gönguleiðinni sökum þess að vindáttin hefur breyst og fellur nú aska yfir gönguleiðina upp frá Skógum.

Fólk fari ekki á milli hraunstraumanna

Magnús Tumi segir mælingamenn frá jarðvísindastofnun hafa tekið eftir því að fólk væri á ferðinni á milli hraunstraumanna norðan við gosstöðvarnar. Slíkt getur verið stórhættulegt, bendir Magnús Tumi á, enda þarf ekki mikið til að fólk lokist inni á milli hraunstrauma. Eins séu miklar leysingar og getur fólk því lokast inni á milli lækja. „Gerist það er bara þyrla sem getur bjargað fólkinu.“

Eins beinir Magnús Tumi þeim tilmælum til fólks að fylgjast vel með gufustrókum. „Einstaka sinnum verða gufusprengingar í hraunjaðrinum. Áður en gufuspenging verður streymir gufa upp úr hrauninu á þeim stað sem sprengingin verður. Mikilvægt er að fólk passi sig á að vera ekki nálægt því svæði þar sem það sér gufu koma upp, því þar getur orðið sprenging sem kastar grjóti í allar áttir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert