Fá hraun og ösku á móti sér

Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að.
Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að. mbl.is

Hraun fór að renna í suðurátt úr Eyja­fjalla­jökli rétt fyr­ir klukk­an sex, þannig að það stefn­ir á móti fólki sem kem­ur gang­andi upp Fimm­vörðuháls, seg­ir lög­regl­an á Hvols­velli.

Jafn­framt hef­ur vind­átt­in breyst þannig að göngugarp­ar hafa fengið yfir sig ösku og reyk og hafa björg­un­ar­sveit­ar­menn vísað fólki frá svæðinu.

Ekki hef­ur þó verið mikið um skjálfta og óróa á svæðinu í dag, seg­ir Sigþrúður Ármanns­dótt­ir, land­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, sem fylg­ist grannt með þróun mála í Eyja­fjalla­jökli. „Þetta hef­ur bara verið á ró­legri nót­un­um.“

Aðspurð seg­ir hún það þó ekki endi­lega vera vís­bend­ingu um að gosið sé í rén­un. Enn­frem­ur seg­ist hún ekki telja að hægt sé að spá með nokk­urri vissu hversu lengi gosið muni vara.

Lög­regl­an og björg­un­ar­sveitar­fólk brýn­ir enn og aft­ur fyr­ir fólki að fara var­lega og að ekki reyna við Fimm­vörðuháls nema vel búið. Þá er varað við því að fara af stað upp háls­inn úr þessu, enda næst það alls ekki fyr­ir myrk­ur.

Lög­reglumaður á Hvols­velli sem mbl.is ræddi við seg­ir allt of mikið um að fólk leggi af stað upp háls­inn illa búið, og ætli sér jafn­vel upp jök­ul­inn á litl­um mótor­hjól­um. Hann seg­ir ekki mikið þurfa til að fólk, sem ekki er vant og illa búið, týn­ist hrein­lega á jökl­in­um. Í raun sé ótrú­legt að ekki hafi orðið al­var­leg slys.

Þrátt fyr­ir mik­inn fólks­fjölda og um­ferð á svæðinu hef­ur allt að mestu gengið vel.  Fis­flug­vél þurfti að lenda nærri gosstaðnum og eru lög­regl­an á Hvols­velli og rann­sókn­ar­nefnd flug­slysa á leið á staðinn.  Eng­in slys urðu á fólki. 
 
Dæmi eru um að fólk á göngu­leiðinni upp Fimm­vörðuháls hafi þurft að leita aðstoðar björg­un­ar­sveita og er eitt dæmi um ein­stak­ling sem varð ör­magna og þurfti hjálp við að kom­ast niður.  Fjöldi björg­un­ar­sveita­manna er á staðnum og munu verða þar næsta sól­ar­hring­inn.  Fólk sem hyggst ganga upp að gos­inu þarf að vera vel búið til slíkr­ar göngu.
 
Borið hef­ur á kvört­un­um vegna ógæti­legs akst­ur vélsleðamanna um svæðið er eru þeir minnt­ir á að fara var­lega þar sem mikið af fót­gang­andi fólki er á staðnum auk fjölda annarra öku­tækja.
 
Nú um kl.18:00 í kvöld varð smá breyt­ing á vind þannig að gufu og ösku legg­ur nú í átt að göngu­leiðinni upp Fimm­vörðuháls.  Hraun hef­ur losnað úr suður kant­in­um við gosstöðina þannig að hraun renn­ur nú að litlu leiti til suðurs.  Ekki er ljóst að þess­ar stundu hversu mikið það er þar sem skyggni vegna gufu og reyks er ekki mikið.  Björg­un­ar­sveit­ar­menn eru á staðnum og fylgj­ast vel með, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá al­manna­vörn­um.
 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert