Fá hraun og ösku á móti sér

Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að.
Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að. mbl.is

Hraun fór að renna í suðurátt úr Eyjafjallajökli rétt fyrir klukkan sex, þannig að það stefnir á móti fólki sem kemur gangandi upp Fimmvörðuháls, segir lögreglan á Hvolsvelli.

Jafnframt hefur vindáttin breyst þannig að göngugarpar hafa fengið yfir sig ösku og reyk og hafa björgunarsveitarmenn vísað fólki frá svæðinu.

Ekki hefur þó verið mikið um skjálfta og óróa á svæðinu í dag, segir Sigþrúður Ármannsdóttir, landfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sem fylgist grannt með þróun mála í Eyjafjallajökli. „Þetta hefur bara verið á rólegri nótunum.“

Aðspurð segir hún það þó ekki endilega vera vísbendingu um að gosið sé í rénun. Ennfremur segist hún ekki telja að hægt sé að spá með nokkurri vissu hversu lengi gosið muni vara.

Lögreglan og björgunarsveitarfólk brýnir enn og aftur fyrir fólki að fara varlega og að ekki reyna við Fimmvörðuháls nema vel búið. Þá er varað við því að fara af stað upp hálsinn úr þessu, enda næst það alls ekki fyrir myrkur.

Lögreglumaður á Hvolsvelli sem mbl.is ræddi við segir allt of mikið um að fólk leggi af stað upp hálsinn illa búið, og ætli sér jafnvel upp jökulinn á litlum mótorhjólum. Hann segir ekki mikið þurfa til að fólk, sem ekki er vant og illa búið, týnist hreinlega á jöklinum. Í raun sé ótrúlegt að ekki hafi orðið alvarleg slys.

Þrátt fyrir mikinn fólksfjölda og umferð á svæðinu hefur allt að mestu gengið vel.  Fisflugvél þurfti að lenda nærri gosstaðnum og eru lögreglan á Hvolsvelli og rannsóknarnefnd flugslysa á leið á staðinn.  Engin slys urðu á fólki. 
 
Dæmi eru um að fólk á gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls hafi þurft að leita aðstoðar björgunarsveita og er eitt dæmi um einstakling sem varð örmagna og þurfti hjálp við að komast niður.  Fjöldi björgunarsveitamanna er á staðnum og munu verða þar næsta sólarhringinn.  Fólk sem hyggst ganga upp að gosinu þarf að vera vel búið til slíkrar göngu.
 
Borið hefur á kvörtunum vegna ógætilegs akstur vélsleðamanna um svæðið er eru þeir minntir á að fara varlega þar sem mikið af fótgangandi fólki er á staðnum auk fjölda annarra ökutækja.
 
Nú um kl.18:00 í kvöld varð smá breyting á vind þannig að gufu og ösku leggur nú í átt að gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls.  Hraun hefur losnað úr suður kantinum við gosstöðina þannig að hraun rennur nú að litlu leiti til suðurs.  Ekki er ljóst að þessar stundu hversu mikið það er þar sem skyggni vegna gufu og reyks er ekki mikið.  Björgunarsveitarmenn eru á staðnum og fylgjast vel með, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka