Fór lamaður að eldgosinu

Jón Gunnar Benjamínsson, sem er lamaður fyrir neðan mitti, ók …
Jón Gunnar Benjamínsson, sem er lamaður fyrir neðan mitti, ók á fjórhjóli að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Snorri Sævarsson

„Ég hugsa að ég hafi verið eini lamaði maðurinn á svæðinu,“ sagði Jón Gunnar Benjamínsson ferðamálafræðingur sem fór að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi á fjórhjóli í gær. Hann hefur ekki látið lömun í fótum aftra sér frá ferðum um óbyggðir Íslands.

„Það var tilfinningarík stund þegar maður sá gosið,“ sagði Jón Gunnar. „Ég hef aldrei séð neitt á ævinni sem hefur haft jafn mikil áhrif á mig. Alveg ótrúleg sjón í alla staði. Krafturinn svo gríðarlegur, lyktin og að sjá hraunið vella fram hægt og bítandi. Það var alveg magnað.“

Hann fór upp ásamt manni frænku sinnar og syni hans sem voru á tveggja manna Polaris fjórhjóli. Þeir óku upp Mýrdalsjökul að gosstöðinni á Fimmvörðuhálsi.

Ferðin að gosstöðvunum var jómfrúrferðin á nýju fjórhjóli sem Jón Gunnar hefur eignast. Það er af gerðinni Polaris 850 Touring. Hjólið er á talsvert stórum dekkjum. Jón Gunnar sagði að þeir hafi hleypt nær öllu lofti úr dekkjunum, rétt um hálfs punds þrýstingur eftir. 

„Ég hugsa að ég geri þetta nú ekki aftur í bráð,“ sagði Jón Gunnar. „Mér þótti alveg nóg um sérstaklega þegar við vorum að fara aftur heim. Þá var kominn skafrenningur og búið að renna í þessar slóðir. Þá var komið þæfingsfæri á miðað við hvernig þetta var á leiðinni upp.“

Hann sagði að snjórinn hafi verið þéttari á leiðinni upp en þá hafi þurft að sigra brattann. „Við byrjuðum á að hleypa helming úr dekkjunum og þá gekk betur. Það dugði ekki til þegar við komum í bröttustu brekkurnar. Þá hleyptum við nánast öllu loftinu úr og komumst á áfangastað,“ sagði Jón Gunnar.

Hann taldi að þeir hafi verið um tvær klukkustundir frá skála Arcanum við jökulbrúnina upp að eldgosinu. Þeir félagar höfðu um þriggja stunda viðdvöl við gosstöðvarnar. Þar fékk Jón Gunnar að hlýja sér inni í björgunarsveitarbíl, enda orðinn býsna kaldur.

„Strákarnir í björgunarsveitinni Stjörnunni vippuðu mér af hjólinu og inn í bílinn. Þar gat ég fengið mér kakó sem ég var með á brúsa og náð hita í kroppinn. Það var 9-10 stiga frost, ansi hvasst og mikil vindkæling.“

Ferðina fór Jón Gunnar á 35 ára afmælisdaginn sinn. „Ég varð hálfsjötugur, eins og góður vinur minn sagði. Hann er reyndar fyrrverandi vinur minn,“ sagði Jón Gunnar glettnislega.

Jón Gunnar er vanur útivistarmaður og stundaði mikið fjallgöngur og leiðsögn með ferðamönnum þar til hann lamaðist fyrir neðan mitti í bílslysi fyrir um þremur árum.  Hann fór yfir hálendið í fyrrasumar á fjórhjóli og ræddi þá um að skipuleggja hálendisferðir fyrir lamaða. Kemur til greina að fara slíka ferð með lamaða að gosstöðvunum?

„Já, en ekki á fjórhjólum,“ sagði Jón Gunnar. „Það þarf að gera á breyttum jeppum.“ Hann segir að það sé of kalt að fara þetta á fjórhjóli og of mikil áhætta á þessum árstíma. Sjálfur var hann mjög vel búinn en varð samt kalt.

„Ég var í fernum buxum. Næst mér í ull, svo flís, svo einangruðum goretex buxum og í skel yst. Á fótum var ég í angora ullarsokkum. Svo venjulegum ullarsokkum og í sérstaklega einangruðum snjósleðaskóm. Ég var mjög kaldur þegar ég kom niður.

Hefði ég farið í venjulegum gönguskóm þá hefði ég örugglega komið kalinn niður. Það bjargaði hvað ég var ofboðslega vel klæddur,“ sagði Jón Gunnar.

Gríðarlegt fjölmenni var við gosstöðvarnar í gær þegar Jón Gunnar kom þar. Honum kom á óvart hvað nokkrir gestanna, þó mikill minnihluti, höguðu sér illa. Þetta fólk var að drekka áfengi, sinnti ekki tilmælum björgunarsveitarmanna og hagaði sér á mjög óábyrgan hátt.

Á endanum kom lögreglumaður með þyrlu til að koma skikk á málin. „Það kom mér á óvart hvað menn voru óskammfeilnir og óhlýðnir við björgunarsveitarfólkið. Það var það eina sem mér þótti leiðinlegt að sjá þarna uppi. En að sjálfsögðu var þetta minnihlutinn.“

Jón Gunnar Benjamínsson fagnaði því að sjá eldgosið á Fimmvörðuhálsi.
Jón Gunnar Benjamínsson fagnaði því að sjá eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Halldór Kolbeins
Fjöldi fólks var við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í gær.
Fjöldi fólks var við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í gær. Halldór Kolbeins (halldor.is)
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert