Nokkuð jafn gangur hefur verið í gosinu á Fimmvörðuhálsi í alla nótt, að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ákveðið hefur verið að opna leiðina frá Skógum á Fimmvörðuháls fyrir göngufólki á ný en henni var lokað í gær.
Björgunarsveitarmenn eru komnir á vakt við gosstöðvarnar á hálsinum en vakt var þar fram til kl. 02 í nótt. Björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða marga göngumenn sem voru á leið niður af hálsinum í gærkvöldi og í nótt. Flestir þeirra höfðu ætlað sér um of og réðu ekki við þessa löngu göngu. Aðrir höfðu lent í minniháttar meiðslum s.s. að snúa sig eða togna.
Einhver brögð voru að því að fólk ætlaði að leggja í göngu á Fimmvörðuháls illa búið. Þeim sem svo var ástatt um var snúið við.
Nú er bjart veður á Fimmvörðuhálsi en verulegt frost og má reikna með
mikilli vindkælingu ef fer að hreyfa vind. Það er áréttað að fólk þarf að vera ákaflega vel búið til
gönguferðar yfir hálsinn og vel nestað. Þá þarf fólk einnig að ráða við slíka göngu en hún er
samtals um 30 kílómetrar og hækkunin er yfir 1100 metrar.
Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli:
Norðaustan og norðan 8-13 metrar á sekúndu og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum
vindhviðum á svæðinu (allt að 13-18 m/s). Frost 6 til 14 stig. Bætir í vind
seint á sunnudag, 10-15 metrar á sekúndu þá um kvöldið og hviður um og yfir 20 metrar á sekúndu.