Nýr hraunfoss í Hrunagili

Nýr hraunfoss myndaðist í Hrunagili við gosstöðvarnar í dag. Hann …
Nýr hraunfoss myndaðist í Hrunagili við gosstöðvarnar í dag. Hann er um 20-30 metrum vestan við hinn farveg hraunsins í gilinu. Jón Hermannsson

Nýr hraunfoss myndaðist við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi um klukkan tvö í dag. Hann fellur í Hrunagil um 20-30  metrum vestan við hinn hraunfossinn sem féll í gilið. Hraunfoss fellur einnig í Hvannárgilið.

Jón Hermannsson, björgunarsveitarmaður frá Hvolsvelli, kom á gosstöðvarnar um klukkan fjögur í dag. Hann sagði að hraunið hafi farið að renna í nýjum farvegi um klukkan tvö í dag. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, fór á gosstöðvarnar í dag með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann sagði að aðalhraunfossinn væri nú niður í Hrunagil. Annar hraunfoss er niður í Hvannárgil.

„Hraunstraumurinn er ekkert að minnka. Það er einhvers staðar á bilinu 20 - 30 rúmmetrar á sekúndu sem kemur úr þessum gíg. Það virðist vera stöðugt,“ sagði Magnús Tumi.  Hann sagði að mjög góð yfirsýn hafi náðst yfir svæðið í ferðinni í dag, sérstaklega að vestanverðu.

„Það er ekkert að draga úr þessu gosi. Kvikustrókarnir eru að vísu lægri en þeir voru en hraunrennslið er ekkert minna,“ sagði Magnús Tumi. 

Magnús Tumi ítrekaði viðvaranir til fólks um að fara ekki vestur og norður fyrir hraunstraumana því þar sé hægt að lokast inni. „Hraunstraumarnir liggja fram á höfðann sem heitir Úthólmar. Það þarf ekki mikið að gerast til að hraun fari að leita þarna alveg til vesturs. 

Það er svo mikið hjarn þarna að þegar hraun byrjar að renna verður aurtaumur á undan því eða vatnsrás. Fólk getur auðveldlega lokast þarna inni.“

Magnús Tumi sagði að mjög gott væri að skoða gosstöðvarnar frá austri og norðaustri. Þar sjáist hraunáin og hraunfossinn niður í Hrunagilið. Ekki var tiltakanlega margt fólk á Fimmvörðuhálsinum nú síðdegis.

Erfitt er að segja til um hvenær hraunið nær fram úr giljunum. Hraun er rétt byrjað að seitla niður í botninn á Hvannárgilinu en komið mun lengra niður Hrunagilið. Magnús Tumi sagði að hver tungan fari fyir aðra niður gilið. Ekkert hamli för hraunsins þar. Þegar hraunið verði búið að byggja betur undir sig ofar, svo það hætti að vera foss, þá fari það að renna greiðar niðureftir því það kólnar svolítið í fossinum. 

Ef gosið heldur áfram mun hraunið væntanlega halda áfram að fara í mismunandi áttir. Búast má við að það þykkni uppi á brúninni. Uppi á hálsinum hefur hraunið þurft að bræða snjó sem hefur kælt hraunið og gert það þykkara.  Þannig eru hraunin að vestanverðu á hálsinum enda hafa þau farið í gegnum töluvert þykka skafla. 

Jón Hermannsson sagði að nú um klukkan 18 hafi um hundrað manns verið við gosið uppi á hálsinum, en það er mun færra en verið hefur þar um helgina. 

Illa búnir ferðalangar í fjallgöngu

Leiðindaveður er nú við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi og eru mun færri á ferðinni þar nú en í gær, samkvæmt frétt frá Almannavörnum. „Nokkuð hefur borið á illa klæddum ferðalöngum og hafa björgunarsveitarmenn þurft að aðstoða nokkra vegna kulda og vosbúðar. 

Þar af var einn komin upp á Fimmvörðuháls klæddur í gallabuxur og leðurjakka.  Sá var kominn með einkenni ofkælingar en björgunarsveitarmenn aðstoðuðu hann við að komast niður til byggða.  Því hefur verið brugðið á það ráð að manna bíl við gönguleiðina upp Fimmvörðuháls þar sem illa búnum ferðalöngum er snúið frá,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Mikil hætta er á að eiturgufur setjist í lægðir og dældir nálægt eldstöðinni og ber sérstaklega að varast að vera á ferð í Hrunagili og Hvannárgili.  Ennfremur er rétt að minna á þá hættu sem geti stafað af gufusprengingum við hraunrennslið þar sem glóandi hraun mætir vatni eða ís.“

Talsverð umferð var við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í dag.
Talsverð umferð var við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í dag. mbl.is/Theodór
Fjallahringurinn séður frá Fljótshlíð.
Fjallahringurinn séður frá Fljótshlíð. mynd/Kristján Bergsteinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert