Náðst hefur samkomulag á milli samgönguráðherra og umhverfisráðherra um að fjölga slökkviliðsmönnum á Reykjavíkurflugvelli um einn á meðan farið er yfir brunavarnir Reykjavíkurflugvallar og túlkun laga um brunavarnir.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir um ásættanlega lausn að ræða á meðan málið er til skoðunar. „Okkur finnst mikilvægt að málið sé komið í meðhöndlun á stjórnsýslustigi og teljum þetta ásættanlega lausn á meðan málið er í vinnslu. Það varð að finna lausn á málinu og ég hafði alltaf trú á að það myndi leysast.“
Flugstoðir hafa síðan í mars fengið slökkviliðsmenn ofan af Keflavíkurflugvelli til að hafa eftirlit með Reykjavíkurflugvelli, og hafa hingað til tveir slökkviliðsmenn fylgst með vellinum á meðan hann er opinn. Greint var frá því í fréttum í vikunni að Jón Viðar hefði hótað því að loka Reykjavíkurflugvelli á næstu dögum ef Flugstoðir féllust ekki á kröfur slökkviliðsins um mönnun brunavarna á vellinum.
Eins og fram hefur komið telja deiluaðilar deiluna í grunninn snúast um lagatúlkun, þ.e. hvort lög um brunavarnir gildi á flugvöllum og um mönnun þessara brunavarna. Slökkviliðsstjóri hefur sagst vilja að fjórir slökkviliðsmenn vakti völlinn en að mati forsvarsmanna Flugstoða nægir að hafa tvo.