Óli Olsen og Vagn Ingólfsson, skipverjar á Esjari SH, voru kátir þegar þeir komu að landi á föstudag með 20 tonna afla eftir fjögur köst.
„Það er sama hvar við köstum, alls staðar er mokafli, en í marsmánuði sem er hávertíð eru bátar bundnir í landi vegna kvótaleysis,“ segir Anton Ragnarsson, skipstjóri á Esjari SH.
Í sjávarplássum eru vaxandi áhyggjur vegna kvótaleysis. Í kvöld er fundur í Ólafsvík á vegum verkalýðsfélagsins og bæjaryfirvalda þar sem staðan verður rædd. Á fundi flokksstjórnar Samfylkingar um helgina sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að athugað yrði hvort auka mætti aflaheimildir.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, að mikilvægt væri að ákvarðanir um aflaheimildir væru teknar í samræmi við vísindalegar niðurstöður.