Ekkert ferðaveður á gossvæðinu

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert ferðaveður er nú í nágrenni gosstöðvanna á Fimmvörðuhálsi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Vindkælingin uppi á hálsinum svipar til 28 stiga frosts. Enginn er uppi á Fimmvörðuhálsi nú en björgunarsveitir fylgdu þeim síðustu niður á þriðja tímanum í nótt. Var farið með fólk niður Fimmvörðuhálsinn þar sem hann er frosinn og ekkert ferðaveður á Mýrdalsjökli. 

Engar sjáanlegar breytingar eru á eldgosinu, að sögn lögreglu sem varar fólk við að fara að gosstöðvunum nú þar sem veðrið er mjög slæmt á þessum slóðum. Hávaðarok og kalt.

Heldur minni virkni virðist hafa verið í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi í nótt en í gær og í fyrrinótt, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum

Allmargir voru við gosstöðvarnar fram á kvöld í gærkvöldi en nær allir voru komnir niður í byggð á þriðja tímanum í nótt og var vakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Fimmvörðuhálsi þá hætt. Þegar leið á kvöldið fór færð á Mýrdalsjökli að þyngjast og þurftu nokkrir á aðstoð Landsbjargar að halda við að komast um jökulinn til byggða, samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls fyrir daginn í dag í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli: Norðaustan og norðan 10-15 m/s og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum vindhviðum á svæðinu (allt að 15-20 m/s). Frost 6 til 13 stig. Dregur úr vindi seint í dag , að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Mun færri voru á ferðinni við gosið í gær heldur en á laugardag. Nokkuð hefur borið á illa klæddum ferðalöngum og hafa björgunarsveitarmenn þurft að aðstoða nokkra vegna kulda og vosbúðar.  Þar af var einn kominn upp á Fimmvörðuháls klæddur í gallabuxur og leðurjakka.  Sá var kominn með einkenni ofkælingar en björgunarsveitarmenn aðstoðuðu hann við að komast niður til byggða. 

Vísindamenn fóru í gær í flug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir eldstöðina þar sem staðan var tekin á virkni og hraunflæði frá henni.  Strókar hafa minnkað en hraunrennslið er nokkuð stöðugt og rennur bæði niður í Hvannárgil og Hrunagil.  Nýtt hraun rennur nú yfir eldra hraun og rennur því hraðar.  Mat vísindamanna er að hraunrennslið nái niður á Krossáraura innan fárra daga.

Mikil hætta er á að eiturgufur setjist í lægðir og dældir nálægt eldstöðinni og ber sérstaklega að varast að vera á ferð í Hrunagili og Hvannárgili.  Ennfremur er rétt að minna á þá hættu sem geti stafað af gufusprengingum við hraunrennslið þar sem glóandi hraun mætir vatni eða ís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert